Tímabilinu lokið eftir spennuþrungna leiki gegn Stjörnunni

Olís-deildin-logo-1
Olís-deildin-logo-1

Selfoss féll úr leik á Íslandsmótinu í handknattleik með minnsta mun eftir spennuþrungna viðureign gegn lærisveinum Patreks Jóhannessonar í Stjörnunni á föstudag. Stjarnan vann seinni leik liðanna, 30:28, og fór áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli en fyrri viðureign liðanna sem fram fór í Garðabæ lauk með tveggja marka sigri Selfoss, 26:24.

Seinni leikurinn á Selfossi jafn og spennandi allan tímann. Í stöðunni 9:9 tókst Selfossliðinu að skora tvö mörk í röð. Heimamönnum tókst ekki að spila vel úr stöðunni. Í stað þess að bæta við forskot sitt, því Vilius varði á þessum tíma nokkur mikilvæg skot, hleyptu þeir Stjörnunni inn í leikinn aftur. Þegar fjórar mínútur voru til hálfleiks var Stjarnan komin með tveggja marka forskot, en Selfyssingar skoruðu seinasta mark hálfleiksins og staðan því 13-14 í hálfleik.

Selfoss byrjaði síðari hálfleik af miklum krafti vel studdir vöskum hópi stuðningsmanna sem drógu hvergi af sér. Selfoss náði fjögurra marka forskoti 18:14 og þá var kátt í Hleðsluhöllinni.

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, tók síðasta leikhlé sitt þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Fimm mínútum áður hafði hann tekið það fyrra. Hvorki gekk né rak. Hans menn voru fjórum mörkum undir, 22:18. Það blés ekki byrlega. Þrjú mörk í röð frá Stjörnunni eftir hléið hleypti spennu í leikinn á ný og nýju lífi í leikmenn liðsins sem virtust vera farnir að hengja haus. Skömmu síðar var jafnt, 25:25. Gestirnir sigu í kjölfarið fram úr og þrátt fyrir að Ragnar hafi minnkaði muninn í tvö mörk, 30:28, þegar tæp mínúta var til leiksloka, náði Stjarnan að hanga á forskotinu til enda.

Mörk Selfoss: Atli Ævar Ingólfsson 8, Hergeir Grímsson 6/3, Ragnar Jóhannsson 5, Einar Sverrisson 4, Nökkvi Dan Elliðason 3, Tryggvi Þórisson 2, og Alexander Már Egan 1. Varin skot: Vilius Rasimas 14 (36%).