Um deildina

Handknattleiksdeildin er ein af níu deildum Ungmennafélags Selfoss og jafnframt sú þriðja stærsta. Iðkendur handknattleiksdeildar Umf Selfoss eru um 280 talsins.

 

Stjórn deildarinnar samanstendur af formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnendum. Unglingaráð er skipað þremur aðilum, formanni, gjaldkera og meðstjórnanda. Deildin leggur mikið upp úr yngri flokka starfi, þjálfun þess og umgjörð en deildin býður upp á þjálfun fyrir börn frá 6 ára aldri.

 

Reynt er að stuðla að traustu og kraftmiklu uppbyggingarstarfi þar sem iðkendur fá tækifæri til auka líkamlegt og andlegt atgervi sitt í jákvæðu og uppbyggilegu umhverfi. Einnig er það markmið handknattleiksdeildarinnar að búa til framtíðarleikmenn í meistaraflokka félagsins auk dómara, almennra félagsmanna og stuðningsmanna sem geta haldið öflugu starfi deildarinnar gangandi um ókomna tíð.

 

Í byrjun hverrar leiktíðar sækir stjórn deildarinnar um umsjón með fjölliðamótum frá HSÍ og hafa þau verið vel heppnuð síðustu ár. Deildin hefur haldið handboltamót í bæði 8. flokki og 7. flokki. 7. flokks mótið er stærsta handknattleiksmót á landinu ár hvert en síðustu ár hafa verið um 900 keppendur á mótinu.

 

Handknattleiksdeildin heldur úti meistaraflokk í bæði karla- og kvennaflokk sem bæði leika í efstu deild ásamt yngri flokkum. Starf deildarinnar er því mjög umfangsmikið en leiknir eru um 200 stakir leikir á vetri auk fjölda fjölliðamóta í yngstu flokkunum.

 

Handknattleiksdeildin heldur úti elsta æfingamóti landsins í meistaraflokki, Ragnarsmótið, en það er haldið á hverju hausti til minningar um Ragnar Hjálmtýsson sem lést langt um aldur fram, en hann var iðkandi hjá deildinni og mjög efnilegur.

 

Handknattleiksdeildin heldur úti starfi handknattleiksakademíu í Fsu. Að jafnaði eru um 30-40 iðkendur sem stunda nám í akademíunni. Námið er þriggja ára og æfa nemendur á skólatíma undir handleiðslu reyndra og góðra þjálfara. Einnig er lögð áhersla á að halda fyrirlestra og fræða nemendur. Einnig koma gestaþjálfarar og kenna nemendum.

 

Myndir úr starfi deildarinnar