Íþróttastarf heimilað á nýjan leik

Frjálsíþróttaskóli 2021 (1)
Frjálsíþróttaskóli 2021 (1)

Allt íþróttastarf hjá Umf. Selfoss kemst í gang á ný á morgun, fimmtudaginn 15. apríl. Grunnskólabörn geta stundað skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf og fjöldatakmarkanir fara úr 10 í 20, samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra sem tekur gildi á miðnætti í kvöld. Á sama tíma og ný reglugerð tekur gildi um tilslakanir á sóttvarnarreglum breytast nálægðarmörk úr 2 metrum í 1 metra í skólum.

Gert er ráð fyrir að reglurnar, sem heilbrigðisráðherra kynnti í gær gildi í þrjár vikur.

Hér má lesa nánar um þær reglubreytingar sem taka gildi á miðnætti í kvöld

Það er mikið fagnaðarefni að allt íþróttastarf geti hafist á ný en það er samt mjög mikilvægt að við pössum áfram upp á eigin sóttvarnir. Virðum 2 metra regluna eftir bestu getu, notum andlitsgrímu þegar við á og sótthreinsum hendur reglulega.

Við hlökkum til að taka á móti ykkur á nýjan leik. 

 

Breytingarnar í hnotskurn

  • Almennar fjöldatakmarkanir verða 20 manns.
  • Sund- og baðstöðum og heilsu- og líkamsræktarstöðvum heimilt að opna fyrir 50% af leyfilegum hámarksfjölda gesta, auk annarra skilyrða.
  • Íþróttaæfingar og -keppnir barna og fullorðinna með og án snertinga í öllum íþróttum heimilar. Hámarksfjöldi fullorðinna verður 50 manns en fjöldi barna fer eftir sömu takmörkunum og í skólastarfi.
  • Allt að 100 áhorfendur eru leyfðir á íþróttakeppnum og - æfingum í skráðum sætum. 

Í ljósi þess sem á undan greinir óskum við eftir:

- að fólk takmarki viðveru á svæðum félagsins.

- að iðkendur mæti stundvíslega á þeim tíma sem þjálfarar þeirra kveða á um.

- að iðkendur yfirgefi svæðið um leið og þeirra viðburði lýkur.

Frá því fyrir páska hafa deildir Umf. Selfoss veitt iðkendum þjónustu í formi fjarþjálfunar til að koma til móts við iðkendur í æfingabanni en nú mun yfirþjálfari hverrar deild fyrir sig senda frá sér tilkynningu um nánara skipulag æfinga.

Nú sem fyrr vill félagið koma á framfæri þakklæti til þjálfara, iðkenda og forráðamanna sem enn og aftur hafa brugðist einstaklega vel við fordæmalausum aðstæðum, verið lausnamiðaðir í leiðum til að sinna æfingum með hag samfélagsins að leiðarljósi.

Allar nánari upplýsingar um starf félagsins má fá hjá framkvæmdastjóra Umf. Selfoss í síma 482-4822 eða í gegnum netfangið umfs@umfs.is.