Egill Blöndal íþróttamaður HSK 2017

IMG_2380
IMG_2380

Júdómaðurinn Egill Blöndal var valinn Íþróttamaður HSK 2017 en verðlaunin voru veitt á Héraðsþingi HSK í Þorlákshöfn sl. laugardag.  Egill er fyrsti judómaðurinn sem hlýtur þessi verðlaun.

Fimm manna valnefnd kaus íþróttamann HSK úr röðum þeirra sem tilnefndir voru af nefndum og ráðum sambandsins. 

Egill hefur lagt gríðarlega mikið á sig við æfingar og keppni, jafnt innanlands sem erlendis á undanförnu ári. Hann vann til verðlauna á öllum mótum innanlands og toppaði á Íslandsmótinu þar sem hann varð Íslandsmeistari í -90 kg flokki og opnum flokki. Hann endaði í öðru sæti á Norðurlandamótinu í Svíþjóð, keppti fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum og var eini keppandi Íslands á heimsmeistaramótinu í Ungverjalandi. Hann var í verðlaunasæti á Holstein Open og Welsh Open og keppti svo í nóvember á Tokyo Grand Slam, einu sterkasta móti heims.

Egill hefur verið þjálfari hjá júdódeildinni á Selfossi undanfarin ár og sinnt því með miklum sóma auk þess að leggja gríðarlega mikið á sig við æfingar og er öðrum iðkendum deildarinnar mjög góð fyrirmynd.

Auk Egils voru tilnefnd:
Akstursíþróttamaður HSK 2017: Ragnar Skúlason, Torfæruklúbbi Suðurlands.
Badmintonmaður HSK  2017: Axel Örn Sæmundsson, Umf. Þór. 
Blakmaður HSK 2017: Hilmar Sigurjónsson, Íþróttafélaginu Hamri.
Briddsmaður HSK 2017: Björn Snorrason, Umf. Selfoss.
Frjálsíþróttamaður HSK 2017: Kristinn Þór Kristinsson, Umf. Selfoss.
Golfmaður HSK 2017: Fannar Ingi Steingrímsson, Golfklúbbi Hveragerðis. 
Glímumaður HSK 2017: Marín Laufey Davíðsdóttir Umf. Þjótanda.
Handkattleiksmaður HSK 2017: Perla Ruth Albertsdóttir, Umf. Selfoss
Hestaíþróttamaður HSK 2017: Guðmundur Friðrik Björgvinsson, Hestamannafélaginu Geysi.
Íþróttamaður fatlaðra 2017: Hulda Sigurjónsdóttir, Íþróttafélaginu Suðra.
Knattspyrnumaður HSK 2017: Kristrún Rut Antonsdóttir, Umf. Selfoss.
Kraftlyftingamaður HSK 2017: Rósa Birgisdóttir, Umf. Stokkseyrar.
Körfuknattleiksmaður HSK 2017: Halldór Garðar Hermannsson, Umf. Þór.
Lyftingamaður HSK 2017: Björgvin Karl Guðmundsson, Lyftingafélagið Hengill.
Mótorkrossmaður HSK 2017: Gyða Dögg Heiðarsdóttir, Umf. Selfoss.
Skákmaður HSK 2017: Björgvin Smári Guðmundsson, Umf. Heklu.
Skotíþróttamaður HSK 2017: Hákon Þór Svavarsson, Skotíþróttafélagi Suðurlands.
Starfsíþróttamaður HSK 2017: Hjördís Þorsteinsdóttir, Umf. Selfoss.
Taekwondomaður HSK 2017: Ingibjörg Erla Grétarsdóttir, Umf. Selfoss.

Meðal annarra verðlauna sem veitt voru á þinginu fékk Umf. Selfoss bikar sem stigahæsta félag í heildarstigakeppni HSK, frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss fékk unglingabikar HSK, fimleikadeild Hamars fékk foreldrastarfsbikarinn og Kjartan Kjartansson, Hamri, var öðlingur ársins.