Egill stóð í ströngu í Búdapest

Júdó - Egill Blöndal
Júdó - Egill Blöndal

Heimsmeistarmótið í júdó 2017 fór fram í Búdapest í Ungverjalandi í síðustu viku. Ísland sendi einn keppanda á mótið, Egil Blöndal Ásbjörnsson, frá júdódeild Selfoss.

Egill keppti í -90 kg þyngdarflokki og fór keppni fram föstudaginn 1. september. Voru þátttakendur í flokknum 72 og mættu flestir af sterkustu júdómönnum heims. Egill sat yfir i fyrstu umferð en í annarri umferð mætti hann keppanda frá Póllandi, Piotr Kuczera, sem er í 35. sæti heimslistans og hafði á þessu ári unnið 20 af 23 glímum sínum.

Egill stóð sig mjög vel og hafði maður á tilfinningunni að hann gæti alveg unnið þessa glímu en reynsla Piotr kom honum greinilega vel og náði Pólverjinn með útsjónarsemi að knýja fram sigur eftir langa og stranga baráttu.

Mótið var mjög sterkt og féllu auk Egils sumir af sterkustu júdómönnum heims út í fyrstu umferð svo sem Beka Gviniashvili margfaldur meistari og örugglega sá sem hefur þótt einn líklegasti sigurvegari flokksins.

Þá varð Teddy Riner frá Frakklandi heimsmeistari í +100 kg flokki en hann er margfaldur Ólympíu- og heimsmeistari og einn sigursælasti keppnismaður allra tíma. Japanir unnum sveitakeppnina sem var nokkuð sérstök að þessu sinni þar sem sveitirnar voru skipaðar þremur konum og þremur körlum.

Allt skipulag og umgjörð mótsins var til fyrirmyndar.

Þetta er í fyrsta en örugglega ekki seinasta skipti sem Egill er valinn til þátttöku á heimsmeistaramótinu. Frábær árangur hjá þessum unga og efnilega júdómanni sem hefur með þrotlausum æfingum, fórnfýsi og aga nú þegar náð langt í íþróttinni en stefnir ennþá hærra.

gs/gj

---

Egill stefnir enn hærra í júdóíþróttinni.
Ljósmynd: Umf. Selfoss