Héraðsþing HSK fór vel fram á Selfossi

Héraðsþing HSK - Viðurkenningar Umf. Selfoss
Héraðsþing HSK - Viðurkenningar Umf. Selfoss

94. héraðsþing HSK var haldið í Fjölbrautaskóla Suðurlands sl. laugardag og er þetta í níunda sinn sem þingið er haldið á Selfossi. Góð mæting var á þingið og gekk þinghald vel undir fundarstjórn Helga Sigurðar Haraldssonar og Söndru Dísar Hafþórsdóttur. Góðar umræður voru í nefndum þingsins og rúmlega 20 tillögur voru samþykktar.

Þingið var haldið á Selfossi að þessu sinni í tilefni af 80 ára afmæli Umf. Selfoss þann 1. júní nk. og vill félagið þakka Sveitarfélaginu Árborg stuðninginn en sveitarfélagið bauð þingfulltrúum og gestum til hádegisverðar á þinginu.

Stjórn sambandsins sem var kosin á þinginu skipa þau, Guðríður Aadnegard formaður, Guðmundur Jónasson gjaldkeri, Helgi S. Haraldsson varaformaður, Anný Ingimarsdóttir ritari og Rut Stefánsdóttir meðstjórnandi. Í varastjórn eru Gestur Einarsson, Baldur Gauti Tryggvason og Olga Bjarnadóttir.

Sigríður Anna og Þuríður sæmdar silfurmerki HSK

Héraðsþing - Silfurmerki_HSK_2016Sigríður Anna Guðjónsdóttir Selfossi og Þuríður Ingvarsdóttir Selfossi voru sæmdar silfurmerki HSK á héraðsþinginu sl. laugardag.

Sigríður Anna og Þuríður hafa um árabil tekið virkan þátt í störfum HSK, en þær eru báðar fyrrum landsliðskonur í frjálsíþróttum.  Afrekskonur sem létu að sér kveða á landvísu og innan héraðs. Þær tóku m.a. þátt í fjölda landsmóta og bikarkeppna fyrir HSK. Of langt mál yrði að rekja afrek þeirra á keppnisvellinum, en þess má geta að Sigríður Anna setti Íslandsmet í þrístökki árið 1997, sem stendur enn.

Þær hafa komið að starfi frjálsíþróttaráðs HSK sem þjálfarar og starfsmenn móta og má nefna sérstaklega þeirra þátt í framkvæmd unglingalandsmóts og landsmóts UMFÍ á Selfossi árin 2012 og 2013.

Þær hafa einnig tekið virkan þátt í störfum frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss sem þjálfarar og stjórnendur. Þuríður hefur um árabil átt sæti í stjórn deildarinnar á Selfossi ásamt því að vera þjálfari hjá deildinni og Sigríður Anna hefur einnig verið þjálfari deildarinnar til margra ára og er nú yfirþjálfari deildarinnar.

Þær eru vel að því komnar að hljóta silfurmerki HSK fyrir sín miklu og góðu störf fyrir HSK.

Guðmundur Kr. öðlingur ársins 2015

Guðmundur Kristinn Jónsson, félagsmaður í Ungmennafélagi Selfoss var útnefndur öðlingur ársins hjá HSK árið 2015 og var valið kunngjört á héraðsþinginu sl. laugardag.

Guðmundur fékk ungur mikinn áhuga á íþróttum og varð snemma afburða spretthlaupari og kraftmikill langstökkvari og þrístökkvari. Hann sló í gegn á Landsmótinu á Laugarvatni 1965, þar sem hann sigraði í 100 metra hlaupi og þrístökki. Guðmundur var lengi meðal bestu spretthlaupara og stökkvara landsins, margfaldur Íslands-, landsmóts- og héraðsmeistari og einn af burðarásum Skarphéðinsliðsins í frjálsíþróttum.

Guðmundur tók snemma þátt í félagsmálum og hefur nær óslitið frá 19 ára aldri gegnt trúnaðarstörfum fyrir hreyfinguna í héraði og á landsvísu. Hann var um átta ára skeið farsæll formaður HSK og leiddi liðsmenn sína til mikilla sigra á Landsmótum UMFÍ. Hann átti sæti í stjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands um skeið. Hann  er núverandi formaður Umf. Selfoss, en þar hefur hann gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í gegnum tíðina, t.d. var hann formaður frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss frá 1968–1979. Hann hefur verið ötull starfsmaður á íþróttamótum HSK um árabil og vinsæll þulur á frjálsíþróttamótum um áratugaskeið.

Guðmundur  Kr. Jónsson er vel að því kominn að vera valinn öðlingur ársins.

Fimleikadeildin hlaut foreldrastarfsbikarinn

Fimleikadeild Selfoss hlaut foreldrastarfsbikar HSK fyrir árið 2015. Foreldrar í deildinni skiluðu hlutfallslega mestri sjálfboðavinnu á Evrópumótinu í hópfimleikum. Eftir því var tekið hvað foreldrar og sjálfboðaliðar frá Selfossi voru duglegir að standa vaktina og sinna ýmsum verkefnum á mótinu.

 

Vegleg ársskýrsla HSK

Vegleg 88 blaðsíðna ársskýrsla HSK kom út á héraðsþinginu. Hana má nálgast á heimasíðu HSK.

---

Fulltrúar Umf. Selfoss sem hlutu viðurkenningu á héraðsþinginu (f.v.) Bjarnheiður Ástgeirsdóttir fyrir Daníel Jens Pétursson taekwondomann ársins, Ríkharð Atli Oddsson fimleikamaður ársins, Þuríður silfurmerki, Grímur Ívarsson júdómaður ársins, Guðmundur Kr. öðlingur ársins, Sigríður Anna silfurmerki, Ingunn Guðjónsdóttir foreldrastarfsbikar, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir handknattleiksmaður ársins, Gyða Dögg Heiðarsdóttir mótokrossmaður ársins og Guðmunda Brynja Óladóttir knattspyrnumaður ársins.
Ljósmyndir: HSK og Umf. Selfoss