Lið HSK fékk fyrirmyndarbikarinn annað árið í röð

Fyrirmyndarbikar ULM 2015
Fyrirmyndarbikar ULM 2015

Á mótsslitum 18. Unglingalandsmóts UMFÍ á Akureyri sl. sunnudagskvöld var tilkynnt hverjir hefðu hreppt Fyrirmyndarbikarinn. Bikarinn féll í skaut Héraðssambandsins Skarphéðins, HSK, og var þetta annað árið röð sem bikarinn fer til HSK. Alls hefur HSK fengið þennan bikar fimm sinnum.

Fyrirmyndarbikarinn var gefinn af Íþróttanefnd ríkisins og er viðurkenning þess sambandsaðila UMFÍ sem sýnt hefur eftirfarandi atriði. Góða umgengni á keppnisstöðum, tjaldsvæði og á almennum svæðum mótsdagana. Háttvísi og prúða framgöngu, m.a. í keppni og við inngöngu á setningu mótsins. Alla mótsdagana er nefnd að störfum sem fylgjast með keppendum og öðrum gestum sambandsaðila UMFÍ og metur frammistöðu þeirra út frá ofangreindum þáttum.

Þetta er mikil viðurkenning á störfum Unglingalandsmótsnefndar HSK, keppenda af sambandssvæðinu og fjölskyldum þeirra.  Forysta HSK óskar því góðu fólki sem á þátt í þessum árangri til hamingju með glæsilega framgöngu.

Keppnislið HSK hefur aldrei verið fjölmennara á unglingalandsmóti utan héraðs, en 190 keppendur tóku þátt. Keppnisliðið hefur aðeins einu sinni verið fjölmennara, en það var á unglingalandsmótinu á Selfossi 2012. Á mótsetningunni gekk HSK hópurinn í bláum jökkum merktum HSK og Arionbanka, en bankinn hefur styrkt þátttöku HSK á mótinu með myndarlegum hætti undanfarin ár.

Frá þessu er greint á vefsíðu HSK.

Heildarúrslit má sjá á vefsíðu UMFÍ.

---

Guðrún Tryggvadóttir formaður unglingalandsmótsnefndar HSK tekur við fyrirmyndarbikarnum úr hendi Helgu Guðrúnar Guðjónsdóttur formanns UMFÍ.
Ljósmynd af vefsíðu HSK.

Fyrir neðan má sjá glæsilegan hóp HSK ganga fylktu liði inn á völlinn við setningu mótsins.
Ljósmynd: Guðlaug Ósk Svansdóttir.