Þór Davíðsson Íslandsmeistari

Júdó - Þór Íslandsmeistari 2016
Júdó - Þór Íslandsmeistari 2016

Íslandsmótið í júdó 2016 fór fram þann 16. apríl í Laugardalshöll og voru keppendur um 50 talsins þar af kepptu fjórir fyrir hönd júdódeildar Selfoss. Þór Davíðsson keppti í -100 kg, Grímur Ívarsson í -90 kg, Þór Jónsson í -81 kg og Hrafn Arnarsson í -60 kg flokki.

Miklar væntingar voru gerðar til Þórs Davíðssonar um að vinna Íslandsmeistaratitilinn 2016 og gerði hann það með nokkrum yfirburðum og sjaldan verið jafn sannfærandi. Hann vann allar sínar viðureignir með fullnaðar sigri og sýndi hver er meistarinn. Nú er bara að sjá hvernig gengur hjá Þór á Norðurlandamótinu í Noregi í maí.

Eins og með Þór voru miklar væntingar um að Grímur ynni Íslandsmeistaratitil og miðað við skráningu fyrir mótið hefði hann gert það því hann sigraði alla sem höfðu verið skráðir við lokun skráningar en Sveinbjörn Yura einn besti júdómaður landsins var færður upp um þyngdarflokk í flokk Gríms og þrátt fyrir frábæra framistöðu tókst Grími ekki að vinna Sveinbjörn sem sigraði að lokum á glæsilegu kasti. Grímur tók silfrið.

Hrafn Arnarsson, upprenndi afreksmaður, sem var að keppa á sínu fyrsta Íslandsmóti aðeins 14 ára stóð sig vel og krækti í 3. sæti. Þór Jónsson sem var að keppa á sínu fyrsta Íslandsmóti meiddist því miður í fyrstu glímu og dró sig úr úr keppni í framhaldi af því.

Selfyssingar söknuðu þess að hafa ekki Egil Blöndal í liðinu en hann er nú við æfingar í Japan. Bergur Pálsson hinn reyndi júdóþjálfari Selfoss getur og má vera stoltur af sínum mönnum.

gs

---

F.v. Grímur, Þór með sigurlaun sín og Hrafn.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Garðar Skaptason