Þrír Selfyssingar kepptu á Smáþjóðaleikunum

Júdó - Grímur og Egill Smáþjóðaleikar 2017
Júdó - Grímur og Egill Smáþjóðaleikar 2017

Smáþjóðleikarnir fór fram í San Marínó í seinustu viku og voru þrír Selfyssingar meðal keppenda. Félagarnir Grímur Ívarsson og Egill Blöndal kepptu í júdó og millivegalengdahlauparinn Kristinn Þór Kristinsson í 800 og 1.500 metra hlaupum auk 4x400 m boðhlaups.

Vefur Smáþjóðaleikanna

Grímur með brons

Grímur Ívarsson hlaut bronsverðlaun í -100 kg flokki. Hann glímdi þrjár glímur og vann viðureign sína gegn keppanda frá Mónakó en það tryggði honum bronsið.

Í +90 kg flokki vann Egill Blöndal andstæðing frá Andorra en tapaði jafnri glímu fyrir andstæðingi frá San Marínó. Hann glímdi um brons við keppanda frá Lúxemborg og tapaði.

Egill keppti jafnframt fyrir hönd Ísland í sveitakeppni í júdó. Liðið sendi ekki keppanda til leiks í -66 kg flokki en Gísli Vilborgarson keppti í -81 kg flokki og Egill í -100 kg flokki. Íslendingar töpuðu báðum viðureignum gegn Svartfjallalandi og Liechtenstein, 2:1. Egill vann Pantic frá Svartfjallalandi, en tapaði gegn Buechel frá Liechtenstein.

Góð hlaup hjá Kristni Þór

Eins og áður segir keppti Kristinn Þór í þremur greinum á Smáþjóðaleikunum. Í 800 m hlaupi náði hann í fjórða sæti á tímanum 1:52,32 mín.

Í 1500 m náði Kristin Þór fimmta sæti í taktísku hlaupi á tímanum 4:02,49 mín.

Frjálsíþróttakeppninni lauk á 4x400m boðhlaupum þar sem íslenska karlasveitin með Kristinn Þór innanborðs endaði í fjórða sæti á tímanum 3:17,19 sek.

Glæsilegur árangur hjá piltunum okkar á alþjóðlegum vettvangi.

Myndir frá Smáþjóðaleikunum má finna á myndasíðu ÍSÍ.

---

Á mynd með frétt eru Grímur (þriðji f.v.) og Egill (fjórði f.v.) ásamt félögum sínum í landsliði Íslands í júdó.
Ljósmynd: ÍSÍ