Svekkjandi úrslit í fyrsta leik

Mynd: Raggi Óla
Mynd: Raggi Óla

Fjöldi fólks lagði leið sína á JÁVERK–völlinn í gærkvöldi þegar Selfoss mætti Aftureldingu í 1.umferð Lengjudeildarinnar.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en það var fyrrum leikmaður Selfoss, Arnór Gauti Ragnarsson, sem kom gestunum yfir eftir um hálftíma leik. Það var eina mark fyrri hálfleiksins. Guðmundur Tyrfingsson jafnaði leikinn fyrir okkar menn þegar síðari hálfleikur var tíu mínútna gamall. Markið kom úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Breka Baxter.

Leikurinn var ansi hraður í síðari hálfleik og skiptust liðin á því að sækja. Okkar menn fengu nokkur góð marktækifæri en inn vildi boltinn ekki. Gestirnir úr Mosfellsbæ refsuðu með tveimur mörkum á síðustu tíu mínútum leiksins. Svekkjandi niðurstaða en næsti leikur liðsins er gegn Leikni R. nk. föstudagskvöld í Breiðholti. Þökkum stuðninginn og Aftureldingu fyrir leikinn.

ÁFRAM SELFOSS!