Um deildina

Sunddeild UMFS er deild innan Ungmennafélags Selfoss. Í deildinni eru stundað, æft og kennt sund. Starfræktur er sundskóli fyrir 5-7 ára börn og kennt ungbarnasund fyrir börn frá tveggja mánaða aldri. Í stjórn deildarinnar eiga sæti 5 einstaklingar, formaður, gjaldkeri og ritari, auk tveggja meðstjórnenda. Við deildina starfar yfirþjálfari sem ber ábyrgð á faglegu starfi deildarinnar.

 

Stefna sunddeildarinnar

Það er stefna sunddeildar Umf. Selfoss að sundiðkun á vegum deildarinnar skuli vera þroskandi líkamlega, sálrænt og félagslega. Jafnframt skulu börnum og unglingum skapaðar aðstæður til þess að geta orðið afreksmenn í sundi í samræmi við líkamlega og sálræna hæfileika hvers og eins. Þá er brýnt að tryggja að þeir sem ekki velja afreksmennsku eða keppnisíþróttir fái tækifæri til þess að stunda sund og/eða líkamsrækt við sitt hæfi um leið og reynt er að þroska félags- og andlega færni hvers einstaklings.

Sunddeild Umf. Selfoss hefur það á stefnuskrá sinni að rekstur deildarinnar sé hallalaus en æfingagjöldum sé jafnframt stillt í hóf. Þá eiga fjárreiður og bókhald deildarinnar að vera í samræmi við gildandi bókhaldslög, skattalög og lög um ársreikninga hverju sinni sem og þær verklagsreglur sem aðalstjórn Umf. Selfoss setur. Það er jafnframt markmið deildarinnar að fjárreiður yngri og eldri iðkenda sé aðskilið eins og kostur er enda leyfi eða gefi iðkendafjöldi tilefni til í samræmi við lög Umf. Selfoss.

Eitt af stefnumiðum sunddeildarinnar er að efla félagsanda og –vitund og vekja, hlúa að og auka áhuga iðkenda fyrir þroskandi félagsstarfi. Félagsstarfið er miðað við þarfir hópsins og á að virkja samkennd hans, þjálfa hópvinnu og tjáningu og gefa iðkendum færi á að takast á við ný og fjölbreytt viðfangsefni. Þá á félagsstarf á vegum sunddeildarinnar að vera fræðandi og auka virðingu einstaklinganna fyrir náunganum og þeim reglum sem þjóðfélagið metur góðar og gildar.

Sunddeild Umf. Selfoss mun á næstu árum leggja vaxandi og markvissari áherslu á uppeldis- og forvarnaþátt sundiðkunar í Árborg. Með því vill sunddeildin axla hluta þeirrar ábyrgðar sem hvílir á herðum þeirra sem sinna börnum og unglingum í leik og starfi. Sunddeildin leggur áherslu á að þróa gott samstarf við foreldra um velferð barna þeirra og lítum á starf okkar sem stuðning og viðbót við uppeldisstarf heimilanna. Einnig leggjum við áherslu á samstarf við skóla og aðra aðila sem starfa með æskufólki í Árborg.