Allt íþróttastarf fellur niður

Íþróttahreyfingin og COVID-19
Íþróttahreyfingin og COVID-19

Á föstudag sendu Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) frá sér sameiginlega fréttatilkynningu sem unnin var í samvinnu við ráðuneyti heilbrigðis og menntamála varðandi aðgerðaráætlun fyrir íþróttafélög vegna COVID19.

Í ljósi þeirra tilmæla sem þar koma fram mun Umf. Selfoss fresta öllu íþróttastarfi félagsins meðan samkomubann er í gildi á Íslandi  eða tilkynning um annað verður gefin út.

Ungmennafélagið hvetur deildir félagsins til að huga vel að iðkendum sínum meðan við í sameiningu tökumst á við þann vágest sem herjar á heiminn. Hvetjum til hreyfingar og miðlum æfingum til iðkenda sem þeir geta framkvæmt meðan samkomubann stendur yfir.

Nýjar hindranir kalla á nýjar lausnir og leggur Umf. Selfoss áherslu á mikilvægi þess að Selfyssingar, Sunnlendingar og landsmenn allir haldi áfram að hreyfa sig þrátt fyrir að skipulagt íþróttastarf sé ekki til staðar. Þannig munu deildir Umf. Selfoss halda áfram að þjónusta sína iðkendur með þeim hætti sem mögulegt er, með fjar- og heimaæfingum og hvetur alla til hvers konar útivistar og hreyfingar sem rúmast innan þeirra takmarka sem eru í gildi.

Sameiginleg fréttatilkynning ÍSÍ og UMFÍ

Frétt af vef UMFÍ