Börnum og ungmennum heimilt að stunda íþróttir á nýjan leik

IMG_1635
IMG_1635

Það er mikið fagnaðarefni að íþróttastarf geti hafist að nokkru leyti á miðvikudag en þá geta börn á leik- og grunnskólaaldri (fædd 2005 og síðar) hafið æfingar með og án snertingar. Það þýðir að íþróttastarf yngri iðkenda Umf. Selfoss fer aftur í fullan gang miðvikudaginn 18. nóvember.

Íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna í leik- og grunnskólum verður heimilt á ný bæði inni og úti miðvikudaginn 18. nóvember, samkvæmt breytingum á samkomutakmörkunum. Til að slíkt starf geti farið fram eru engar takmarkanir settar varðandi blöndun milli hópa. Fjöldamörk í hverju rými fara eftir reglugerð um takmarkanir á skólastarfi. Leikskólabörn og börn í 1.–4. bekk grunnskóla mega vera 50 saman að hámarki en nemendur í 5.–10. bekk að hámarki 25 saman.

Því miður eru æfingar eldri iðkenda (16 ára og eldri) enn óheimilar og verða svo til a.m.k. 2. desember þegar sóttvarnarreglur verða endurskoðaðar.

Sjá nánar í frétt á vef UMFÍ

Frá lokum október hafa deildir Umf. Selfoss veitt iðkendum þjónustu í formi fjarþjálfunar til að koma til móts við iðkendur í æfingabanni. Yfirþjálfarar í samstarfi við stjórnir og þjálfara deilda eru nú á fullu að skipuleggja starfsemi okkar í samráði við forsvarsmenn íþróttamannvirkja á Selfossi. Mun yfirþjálfari hverrar deild fyrir sig senda frá sér tilkynningu um nánara skipulag æfinga í vikunni. Horft er til þess að æfingar verði í samræmi við útgefna æfingatíma vetrarins en þó alltaf í samræmi við tilmæli sóttvarnarlæknis.

Sem fyrr er að ýmsu að hyggja fyrir stjórnendur og þjálfara félagsins þegar æfingar fara í gang á ný. Gleðinni og félagsskapnum sem fylgir ábyrgð. Umf. Selfoss treystir deildum félagsins fullkomlega til að finna bestu mögulegu lausnirnar fyrir alla aldurshópa með það að leiðarljósi að allir séu með og enginn iðkandi skilinn út undan í starfinu.

Félagið vill koma á framfæri þakklæti til þjálfara, iðkenda og forráðamanna sem hafa brugðist einstaklega vel við fordæmalausum aðstæðum, verið lausnamiðaðir í leiðum til að sinna æfingum með hag samfélagsins að leiðarljósi.

Þjálfarar Umf. Selfoss hlakkar mikið til að taka á móti iðkendum okkar aftur.

Allar nánari upplýsingar um æfingagjöld og æfingabann má fá hjá framkvæmdastjóra félagsins í síma 482-2477 eða í gegnum netfangið umfs@umfs.is.