Hátt í hálfri þriðju milljón úthlutað til Umf. Selfoss

Merki HSK - Logo
Merki HSK - Logo

Í seinustu viku var tilkynnt um fyrri úthlutun úr Verkefnasjóði HSK fyrir árið 2017. Reglugerð um sjóðinn var breytt á síðasta héraðsþingi og framvegis verður úthlutað úr sjóðnum tvisvar á ári.

Á fundi sjóðsstjórnar voru teknar fyrir umsóknir sem bárust fyrir 1. apríl sl. en alls bárust 35 umsóknir. Á fundinum var ákveðið að veita að hámarki einn afrekstyrk á ári til hvers afreksmanns og það sama á við um styrki vegna landsliðsvals einstaklinga. Það verða því ekki veittir styrkir í haust til þeirra einstaklinga sem fá styrki við fyrri úthlutun ársins.

Nærri hálfri þriðju millljón króna var úthlutað til Umf. Selfoss en þar af fékk fimleikadeildi Selfoss kr. 900 þúsund úr sjóðnum vegna þjálfaranámskeiða og landsliðsverkefna, handknattleiksdeild Selfoss fékk kr. 490 þúsund vegna landsliðsverkefna og þjálfaranámskeiðs, júdódeild Selfoss hlaut kr. 225 þúsund vegna landsliðsverkefna, knattspyrnudeild Selfoss fékk kr. 410 þúsund vegna þjálfaranámskeiða innanlands og utan og taekwondodeild Selfoss fékk kr. 335 þúsund vegna landsliðsverkefna og þjálfaranámskeiðs í Suður-Kóreu. Alls fékk Umf. Selfoss því úthlutað kr. 2.360 þúsund úr sjóðnum við þessu úthlutun.

Sækja þarf styrkina fyrir 31. desember 2017. Eftir það fellur umsóknin niður, enda verður þá litið svo á að verkefnið hafi ekki verið framkvæmt. Þegar hefur verið opnað fyrir umsóknir vegna næstu úthlutunar, en umsóknarfrstur er til 1. október nk. Sækja þarf  um á heimasíðu HSK.