Unglingalandsmót UMFÍ um verslunarmannahelgina

unglingalandsmotsmerki_-_tomt1
unglingalandsmotsmerki_-_tomt1

Unglinaglandsmót UMFÍ verður haldið á Egilsstöðum nú um verslunarmannahelgina, hefðbundin íþróttakeppni hefst á föstudag og mótsslit verða á sunnudagskvöld. Um 130 keppendur frá HSK eru skráðir til leiks.

Keppt í fjölmörgum íþróttagreinum

Fjölbreytt dagskrá er í boði í fjölmörgum íþróttagreinum þar sem börn og unglingar á aldrinum 11-18 ára etja kappi. Í boði eru BOCCIA, BOGFIMI, UIA THROWDOWN, FIMLEIKAR, FJALLAHJÓLREIÐAR, FRISBÍGOLF, FRJÁLSÍÞRÓTTIR, GLÍMA, GOLF, GÖTUHJÓLREIÐAR, HESTAÍRÞÓTTIR, KNATTSPYRNA, KÖKUSKREYTINGAR, KÖRFUBOLTI, MÓTOKROSS, ÓLYMPÍSKAR LYFTINGAR, RATHLAUP, SKÁK, STAFSETNING, SUND og UPPLESTUR. Fötluðum einstaklingum er boðið að keppa í frjálsíþróttum og sundi.

Spennandi dagskrá utan íþróttakeppninnar

Þrátt fyrir að íþróttakeppni unga fólksins sé aðalatriðið á mótinu, er hugsað fyrir margvíslegri afþreyingu fyrir alla fjölskylduna. Yngri börnin fá að sjálfsögðu líka að spreyta sig við ýmsar íþróttir.

Setning Unglingalandsmótsins fer fram á föstudag kl. 20:00. Allir keppendur HSK, foreldrar og systkini eru hvattir til að taka þátt í skrúðgöngunni inn á völlinn.

Mörg tónlistaatriði eru í boði á kvöldvökunum sem eru fjögur kvöld.

Tjaldbúðir HSK

HSK er úthlutað sérstöku tjaldsvæði þar sem Skarphéðinsfólk tjaldar saman. Tjaldsvæði mótsins verður staðsett nærri Egilsstaðaflugvelli norðan við bæinn á sama stað og síðast þegar mótið var haldið á Egilsstöðum. Tjaldsvæðið verður merkt þátttökuliðum og er ókeypis. Hinsvegar verður tekið lítið gjald fyrir rafmagnsnotkun hjá þeim sem það nota.

HSK tjaldið

Keppendur, foreldrar og aðrir mótsgestir af sambandssæðinu eru hvattir til að koma í HSK tjaldið á kvöldin. Kveikt er í kolum á stóru grilli fyrir kvöldmat sem allir geta nýtt sér. Seinna um kvöldið er boðið upp á kakó og veitingar sem eru í boði endurgjaldslaust. Hver veit nema að menn taki lagið og eru liðtækir hljóðfæraleikarar hvattir til að taka gítarinn með.