4. flokkur spilar til úrslita á Íslandsmótinu

601120_10151472127683058_610626034_n
601120_10151472127683058_610626034_n

4. flokkur karla eldri mætti FH í gær í undanúrslitum Íslandsmótsins. Fjöldi áhorfenda sá Selfyssinga gera út um leikinn með frábærri byrjun þar sem liðið komst í 12-4. Lokatölur urðu 26-21 sigur og eru Selfyssingar því komnir í úrslitaleikinn á Íslandsmótinu þar sem þeir mæta Fram. Leikurinn fer fram kl. 14:00 á Seltjarnarnesi á laugardaginn.

Eins og áður segir byrjuðu Selfyssingar leikinn afar vel. Þeir komust í 3-0, 7-2 og leiddu svo 12-4 eftir 20 mínútur. Hafði varnarleikur liðsins þá verið hreint magnaður en liðið er að leika aðeins öðruvísi varnarleik en það hefur verið að gera í vetur. FH-ingar minnkuðu muninn aðeins fyrir hlé og 14-8 í hálfleik.

Í upphafi síðari hálfleiks sýndu Selfyssingar að þeir voru ekki hættir og voru komnir 17-9 yfir eftir þriggja mínútna leik. Kom þá smá hikst í leik Selfyssinga en þeir fengu nokkuð af brottvísunum á næstu mínútum þar á eftir.  FH minnkaði muninn í 18-14 en Selfoss fór þá strax í 23-16. Selfyssingar leiddu svo 26-19 en það voru FH-ingar sem gerðu seinustu tvö mörk leiksins og lokaniðurstaða 26-21.

Leikur Selfyssinga var mjög góður í leiknum. Það besta við frammistöðuna var að enginn var ragur eða smeykur og voru leikmenn tilbúnir að taka af skarið og nutu þess í botn að spila þennan stóra leik. Það er vonandi það sem koma skal í úrslitaleiknum en yfirvegunin var mikil í liði Selfyssinga. Sóknarlega fundu þeir frábærar lausnir nær allan leikinn og léku vörn FH oft algjörlega í sundur. Varnarlega var liðið að spila sinn besta leik síðan 10. mars. Hreyfingin í vörninni, samvinnan og viljinn var í hæsta klassa.

Líkt og áður segir mæta strákarnir Frömurum í úrslitaleik Íslandsmótsins. Vonumst við til að fólk fjölmenni á Seltjarnarnes á laugardaginn kl. 14:00 og styðji strákana til sigurs.