Ása Björg starfsmaður Selfoss/Suðra

F.v. Ófeigur Ágúst Leifsson formaður Selfoss/Suðra, Ása Björg Þorvaldsdóttir og Helgi Sigurður Haraldsson formaður Umf. Selfoss.
F.v. Ófeigur Ágúst Leifsson formaður Selfoss/Suðra, Ása Björg Þorvaldsdóttir og Helgi Sigurður Haraldsson formaður Umf. Selfoss.

Það var ánægjuleg stund í Tíbrá sl. mánudag þegar gengið var frá ráðningu Ásu Bjargar Þorvaldsdóttur sem starfsmanns hjá Selfoss/Suðra, deild Umf. Selfoss um íþróttastarf fatlaðra.

Helsta verkefni Ásu Bjargar er að skipuleggja og halda utan um íþróttafjör (hreyfifjör) fyrir börn með sértækar stuðningsþarfir.

Íþróttafjör byrjaði þann 14. janúar 2024 og er hugmyndin á bakvið verkefnið að bjóða öllum börnum upp á íþróttir við sitt hæfi í sínu nærumhverfi. Fyrstu tímarnir fóru í að kynnast iðkendum, meta stuðningsþörf, finna áhugasvið og styrkleika hvers og eins. Seinna meir komu gestaþjálfara frá öðrum deildum Umf. Selfoss og voru með æfingu fyrir iðkendur Selfoss/Suðra hvort sem það voru fimleikar, fótbolti, frjálsar eða annað.

Íþróttafjörið er hluti af verkefninu ALLIR MEÐ er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og ÍF (Íþróttasamband fatlaðra). ALLIR MEÐ er þriggja ára verkefni sem er liður í að ná markmiðum 30. greinar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en þar eru skýr ákvæði um viðeigandi aðlögun allra í íslensku samfélagi og var Selfoss/Suðri meðal fyrstu aðila til að fá úthlutað úr sjóðnum.

Nánar um Íþróttafjör veturinn 2025-2026

Íþróttafjör er á vegum Selfoss/Suðra í Baulu, íþróttahúsi Sunnulækjarskóla, alla sunnudaga milli klukkan 13:00 og 14:00.

Íþróttafjör er fyrir krakka með fatlanir eða taugaþroskaraskanir. Boðið er upp á fjölbreytta hreyfingu þar sem aðaláherslan er að hafa gaman, skemmta sér og prófa ólíka hreyfingu. Meðal annars eru stöðvar með boccia, fimleikum, badminton, hokkí, körfubolta, minnisspili, fiskaveiðispili, flokkun eftir litum, snertissteinum, jó jó, hringjakastleik og handtrampólín með boltum svo eitthvað sé nefnt.

Íþróttafjör er fyrir iðkendur fædda 2013-2020 (eldri og yngri eftir samkomulagi).

Öll eru velkomnin. Tekið er tillit til þess ef iðkendur hafa lítið úthald eða eiga erfitt með að fara eftir fyrirmælum eða fylgja plani, námskeiðið er aðlagað að þátttakendum. Í íþróttafjöri fáum við öðru hvoru fá heimsókn frá þjálfurum hinna ýmsu íþróttagreina innan Umf. Selfoss sem munu kynna sínar greinar og leyfa iðkendum að prófa.

Ása Björg er kennaramenntuð og vann við kennslu og sérkennslu í fjölmörg ár. Hún hefur lokið fyrra stigi af tveimur úr þjálfaranámi frá ÍSÍ, er aðstoðarþjálfari í Boccia hjá Selfoss/Suðra.

Skráning og nánari upplýsingar í gegnum netfangið asabjorg76@gmail.com