Brenna áfram á Selfossi

Brenna Lovera 2021
Brenna Lovera 2021

Bandaríski sóknarmaðurinn Brenna Lovera hefur skrifað undir nýjan, tveggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss.

Lovera, sem er 24 ára gömul, kom til liðs við Selfoss í vor frá Boavista í Portúgal. Hún hefur heldur betur slegið í gegn í Pepsi Max deildinni í sumar, er markahæst í deildinni með 13 mörk í 14 leikjum og var meðal annars valin besti leikmaður fyrsta þriðjungs Íslandsmótsins.

„Þetta er búið að vera gott tímabil. Selfoss er frábært félag með jafnvel enn betra samfélag á bakvið sig. Ég er mjög spennt fyrir því að framlengja samninginn minn á stað sem mér finnst vera eins og heimili að heiman. Ég get ekki beðið eftir því að byggja ofan á það sem við höfum gert á þessu tímabili,” segir Brenna Lovera.