Elvar Örn og Perla Ruth íþróttafólk Umf. Selfoss

IMG_8556
IMG_8556

Handknattleiksfólkið Elvar Örn Jónsson og Perla Ruth Albertsdóttir voru valin íþróttakarl og íþróttakona ársins 2017 hjá Ungmennafélagi Selfoss. Verðlaunahátíð Ungmennafélags Selfoss var haldin í félagsheimilinu Tíbrá föstudaginn síðastiliðinn. Sú hefð hefur verið að veita verðlaunin á aðalfundi Ungmennafélags að vori, en ákveðið var að halda sérstaka verðlaunahátíð í lok árs.

Perla Ruth hefur verið lykilleikmaður í ungu liði Selfoss sem tryggði sér áframhaldandi sæti í Olísdeildinni í vor og situr í 6. sæti deildarinnar sem stendur. Perla hefur skorað um 150 mörk á árinu og var valin nokkrum sinnum í æfingahóp A-landsliðsins á árinu og lék þrjá fyrstu landsleiki sína í nóvember, var alltaf í byrjunarliði og skoraði 10 mörk.

Elvar Örn er fyrirliði ungs liðs meistaraflokks Selfoss í handbolta, sem er stendur í 4. sæti Olísdeildarinnar. Elvar var í lykilhlutverki með U-21 landsliðinu í forkeppni og lokakeppni HM í sumar. Hann hefur einnig verið valinn í A-landsliðshópinn tvisvar sinnum á árinu og  var valinn besti miðjumaður Olisdeildarinnar síðastliðið vor.

Á verðlaunahátíðinni var íþróttafólk ársins í flestum deildum félagsins einnig heiðrað, en hver deild Umf. Selfoss tilnefndi íþróttakarl og íþróttakonu í sinni deild.

Frjálsar: Kristinn Þór Kristinsson og Guðrún Heiða Bjarnadóttir

Handknattleikur: Elvar Örn Jónsson og Perla Ruth Albertsdóttir

Júdó: Egill Blöndal

Knattspyrna: Þorsteinn Daníel Þorsteinsson og Kristrún Rut Antonsdóttir

Mótokross: Gyða Dögg Heiðarsdóttir

Sund: Sara Ægisdóttir

Taekwondo: Brynjar Logi Halldórsson og Ingibjörg Erla Grétarsdóttir


Íþróttafólk deilda ásamt íþróttakarli og íþróttakonu ársins hjá Umf. Selfoss

Á verðlaunahátíðinni voru einnig þau hjónin Bogi Karlsson og Kristín Guðmundsdóttir sæmd silfurmerki félagsins en þau hafa stutt við bakið á öllum deildum ungmennafélagsins um áraraðir og Bogi hefur sinnt ýmsum stjórnar- og nefndarstörfum í gegnum tíðina.


Guðmundur Kr. Jónsson, formaður Umf. Selfoss sæmdi þau Boga Karlsson og Kristínu Guðmundsdóttir silfurmerki félagsins.