Eva María og Egill íþróttafólk Umf. Selfoss 2022

Egill og Eva María íþróttafólk Umf. Selfoss 2022
Egill og Eva María íþróttafólk Umf. Selfoss 2022

Frjálsíþróttakonan Eva María Baldursdóttir og júdómaðurinn Egill Blöndal hafa verið valin íþróttakona og íþróttakarl Umf. Selfoss árið 2022.

Eva María var með besta afrek ársins 2022 í hástökki á Íslandi. Hún er í stórmóta- og landsliðshópi FRÍ og hefur verið að ná lágmörkum á flest stórmótin. Hún er komin í hóp þeirra bestu á Norðurlöndunum, ásamt því að vera ein af þeim allra efnilegustu í Evrópu og heiminum um þessar mundir.

Egill Blöndal er einn af öflugustu judómönnum landsins. Hann er núverandi Evrópumeistari smáþjóða í -90 flokki og Íslandsmeistari Seniora í -90 kg flokki, fimmta árið í röð. Egill er fyrirmynd þeirra sem iðka íþróttina, missir ekki úr æfingu og stefnir ávallt á að bæta eigin árangur eða hópsins sem hann þjálfar eða ber ábyrgð á. Egill fylgir einnig keppendum deildarinnar erlendis á mót og æfingar.

Sjö karlar og fimm konur voru tilnefnd í kjörinu af deildum ungmennafélagsins og tóku þau við viðurkenningum frá formanni félagsins í Tíbrá í gær.

Ungmennafélag Selfoss óskar Evu Maríu og Agli hjartanlega til hamingju með valið.