Eva og Konráð fimleikafólk ársins

Á jólasýningu Fimleikadeildar Selfoss hefur skapast sú hefð að krýna fimleikamenn ársins.

Að þessu sinni urðu fyrir valinu Eva Grímsdóttir  19 ára Selfossmær og Konráð Oddgeir Jóhannsson 16 ára Selfyssingur. Þau hafa bæði sýnt framúrskarandi árangur á æfingum og í keppni á líðandi ára og eru yngri iðkendum deildarinnar miklar fyrirmyndir. Þau leggja mikinn metnað í æfingar sínar og eru mikilvægir liðsmenn.

Konráð keppti meðal annars með blönduðu liði Selfoss á Norðurlandamóti unglinga í april á þessu ári og uppskar þar brons með liðinu. Svo náði hann að komast í unglingalandsliðið í blönduðum flokki í  hópfimleikum og keppti með því á Evrópumótinu í október síðastliðnum.  Þar stóð hann sig afar vel og liðið hafnaði í 3. sæti.

Eva náði þeim einstaka árangri að komast alla leið í A-landslið kvenna en baráttan er mjög hörð um sæti í því liði. Eva stóð sig mjög vel með landsliðinu og endaði kvennaliðið í 2. sæti á Evrópumeistaramótinu.

Næstu verkefni hjá íþróttafólkinu er að keppa á íslenska tímabilinu 2015 og freista þess að ná inn á Norðurlandamót fullorðinna sem haldið verður á Íslandi í nóvember 2015.

Fimleikadeild Selfoss færir þeim hamingjuóskir með þennan glæsilega árangur og óskar þeim gæfu og góðs gengis á nýju fimleikaári.

ob

---

Fimleikafólks Selfoss árið 2014.
Mynd: Umf. Selfoss/Inga Heiða Heimisdóttir