Fjögur gull á MÍ 15-22 ára

Selfoss_merki_nytt
Selfoss_merki_nytt

Helgina 2.- 3. febrúar fór fram Unglingameistaramóti Íslands 15 – 22 ára í frjálsíþróttum. HSK-Selfoss átti þar 19 keppendur sem stóðu sig með prýði. Í hús komu fjögur gullverðlaun, fjögur silfur og fimm brons.

Bjarni Már Ólafsson Vöku varð tvöfaldur Íslandsmeistari í flokki 20 – 22 ára pilta. Hann sigraði langstökkið eftir hörkukeppni með 6,46 m en annað og þriðja sæti fóru einnig yfir 6,40 m. Hann vann svo þrístökkið með yfirburðum með 13,60 m stökki. Í þessum flokki var Hreinn Heiðar Jóhannsson Laugdælum nálægt því að vinna til gullverðlauna í hástökki. Hann stökk 1,94 m, jafnhátt og sigurvegarinn sem var með færri föll í heildina. Eva Lind Elíasdóttir Þór í Þorlákshöfn varð Íslandsmeistari í kúluvarpi í flokki 18 – 19 ára stúlkna er hún kastaði sitt þriðja lengsta kast á ferlinum, 11,20 m. Í flokki pilta 15 ára eigum við tvo sterka stráka. Sveinbjörn Jóhannesson Laugdælum sigraði í kúluvarpinu, varpaði 14,27 m sem er bæting um tæpa fjörtíu cm. Teitur Örn Einarsson Selfossi varð annar með kast upp á 13,23 m. Teitur kom svo þriðji í mark og tók silfur í 800 m hlaupinu á prýðisgóðum tíma, 2:18,51 mín. Sveinbjörn skellti sér svo í stangarstökk og vippaði sér yfir 2,30 m og nældi sér í bronsverðlaun. Í flokki pilta 16 – 17 ára vann Sigþór Helgason Selfossi til þriggja verðlauna með ágætum árangri. Hann varð annar í þrístökki með því að fara 12,18 m, en þar varð Grímur Kristinsson Laugdælum þriðji með 11,93 m. Í langstökki varð Sigþór þriðji með 5,79 m eftir hörkuspennandi keppni þar sem örfáir cm skyldu að fyrsta og þriðja sætið. Í þrístökki stúlkna í sama flokki vann Guðrún Heiða Bjarnadóttir Selfossi til silfurverðlauna með því að bæta sig innanhúss er hún sveif 10,58 m.

Næsta mót er MÍ aðalhluti sem verður um næstu helgi, 9. – 10. febrúar í Laugardalshöll. Þar mun HSK-Selfoss senda vaska sveit þar sem m.a. Fjóla Signý Hannesdóttir Selfossi mætir til leiks, en hún er við æfingar og nám í Svíþjóð.

 Ólafur Guðmundsson