Fjögur stig í hús um helgina

Sjóli
Sjóli

Það er þétt spilað í deildinni núna og áttu strákarnir í meistaraflokki karla tvo leiki um helgina. Fyrst tóku þeir á móti nágrönnum sínum og félögum í Mílunni á föstudaginn og unnu nokkuð örugglega 30-19 eftir að hafa leitt í hálfleik 13-10. Selfoss leiddi allan leikinn en Mílan var þó aldrei langt á eftir í fyrri hálfleiknum. Í þeim seinni náðu okkar strákar að hrista Mílan af sér og landa öruggum ellefu marka sigri.

Markaskorun skiptist á milli tíu leikmanna en Hörður Másson, Egill Eiríksson og Alexander Már Egan skoruðu allir sex mörk. Jóhannes Snær og Egidijus skoruðu þrjú mörk hvor, Matthías Halldórsson skoraði tvö og Guðjón Ágústsson, Ómar Helgason, Jóhannes Erlingsson og Andri Már Sveinsson skoruðu allir eitt mark.

Á Sunnudaginn héldu svo strákarnir í Hafnafjörðinn þar sem þeir mættu liði ÍH. Það var jafnt á flestum tölum í fyrri hálfleik og þegar flautað var til hálfleiks var staðan 11-11 en okkar menn voru að spila nokkuð undir getu. Gunnar þjálfari hefur greinilega hrist aðeins upp í strákunum í hálfleik því Selfoss tók forystuna strax í upphafi seinni hálfleiks og jók hana jafnt og þétt út leikinn sem endaði með tíu marka sigri Selfoss, 22-32.

Markahæstur á móti ÍH var Hörður Másson með átta mörk. Guðjón Ágústsson skoraði sex, Sverrir Pálsson fimm, Hergeir Grímsson fjögur, Alexander Már þrjú, Ómar Vignir og Jóhannes Snær tvö mörk hvor og Jóhannes Erlingsson og Árni Guðmundsson eitt mark hvor.

Sebastian Alexandersson varði níu bolta í marki Selfoss, var með 45% markvörslu og Helgi Hlynsson varði fjóra bolta, var með 27% markvörslu.

Fjögur góð stig í hús eftir helgina, sem er frábært. Selfoss situr sem fastast í þriðja sæti deildarinnar með 27 stig, fjórum stigum á undan Fjölni sem hefur spilað einum leik færra.

Næsti leikur liðsins er á móti Gróttu en von er á baráttuleik enda skiptir hver stig máli á toppnum. Leikurinn fer fram í Vallaskóla, föstudaginn 20. mars klukkan 20:15.

Nú mæta allir á pallana, myndum skemmtilega stemmingu og hvetjum okkar lið.

Mynd: Hörður Másson var sprækur um helgina og skoraði samtals 14 mörk í leikjunum. Myndina tók Jóhenns Ásgeir Eiríksson en fleiri myndir má sjá hér.