Fríða með sigurmarkið á síðustu stundu

Byrjunarliðið gegn Keflavík 21. maí 2019
Byrjunarliðið gegn Keflavík 21. maí 2019

Kvennalið Selfoss vann dýrmætan sigur á Keflavík í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur leiksins urðu 3-2 þar sem Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði sigurmarkið á lokamínútu leiksins.

Selfoss byrjaði leikinn frábærlega og eftir aðeins 117 sekúndur hafði Barbára sett boltann í netið. Aðdragandi marksins var ákaflega snyrtilegur en boltinn barst frá Kelsey í markinu á Önnu Maríu sem geystist upp vinstri kantinn, vel inn á vallarhelming Keflavíkur þar sem hún renndi boltanum á Magdalenu. Magda spilaði stutt á Evu Lind úti á vinstri kantinum sem tékkaði inn á völlinn og kom svo með frábæra fyrirgjöf inní á Barbáru. Barbára var ekkert að flækja hlutina heldur tók boltann í fyrsta og lyfti honum skemmtilega yfir markvörð gestanna úr miðjum vítateignum.

Þessi málsgrein hér að ofan lýsir nánast því eina markverða sem gerðist af hálfu Selfyssinga í leiknum því eftir markið tók Keflavík leikinn yfir og Selfossliðið átti í bölvuðu basli með að spila boltanum. Gestirnir gerðu hins vegar vel og uppskáru mark frá Sophie Groff á 29. mínútu og annað frá Sveindísi Jane Jónsdóttur á 34. mínútu. Staðan 1-2 í hálfleik og forskot gestanna virkilega verðskuldað.

Alfreð þjálfari setti hárblásarann í samband í leikhléinu og það var allt annað að sjá til Selfossliðsins í seinni hálfleik. Fríða kom inn af bekknum á 66. mínútu og hún átti heldur betur eftir að setja mark sitt á leikinn.

Á 70. mínútu fékk hún boltann úr innkasti frá Bergrósu við vítateigshornið hægra megin, sneri glæsilega á varnarmann Keflavíkur og lék upp að endamörkum þar sem hún renndi boltanum fyrir markið á Grace sem skoraði auðveldlega af stuttu færi.

Bæði lið áttu álitlegar sóknir í kjölfarið en á 90. mínútu vann Selfoss hornspyrnu eftir góða aukaspyrnu Cassie inn á teiginn. Magda tók frábæra hornspyrnu inn á hættusvæðið þar sem Hólmfríður var mætt og stangaði boltann í netið.

Þetta var annar sigur Selfoss í röð í deildinni en liðið hefur nú 6 stig og er í 6. sæti Pepsi Max deildarinnar.

Fjallað var um leikinn á sunnlenska.is, fotbolti.net og mbl.is. Hér er líka viðtal við Fríðu á mbl.is.