Fyrsti heimasigur Selfyssinga

Knattspyrna - Hrvoje Tokic HM
Knattspyrna - Hrvoje Tokic HM

Selfoss vann afar mikilvægan sigur á Víkingi frá Ólafsvík þegar liðin mættust í Lengjudeildinni á laugardag. Átta mörk voru skoruð í leiknum og komu sex af þeim í fyrri hálfleik.

Hrvoje Tokic skoraði fyrstu tvö mörk leiksins og komu þau bæði eftir glæsilegan undirbúning Gary Martin. Gestirnir minnkuðu muninn í 2-1 áður en Kenan Turudija setti boltann í netið eftir klafs inni í vítateig Víkinga. Tokic innsiglaði þrennuna stuttu fyrir hálfleik þegar hann setti boltann í netið af vítapunktinum. Víkingar náðu að klóra í bakkann rétt fyrir hálfleik og staðan því 4-2 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur var ekki gamall þegar gestirnir minnkuðu muninn enn frekar í 4-3. Eftir það sóttu Víkingar meira en það var ekki fyrr en á 90. mínútu leiksins sem að Gary gerði endanlega út um leikinn þegar hann skoraði fimmta mark Selfyssinga. Lokatölur á JÁVERK-vellinum 5-3, Selfoss í vil.

Sigurinn, sem var sá fyrsti á heimavelli í sumar, var afar kærkominn enda liðin að berjast í neðri hluta töflunnar.

Næsti leikur liðsins er fimmtudaginn 1. júlí en þá fer liðið til Eyja og mætir ÍBV klukkan 18:00 á Hásteinsvelli.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is

Umf. Selfoss/ahm

---

Hrvoje Tokic setti þrennu gegn sínum gömlu félögum frá Ólafsvík.
Ljósmynd: Hrefna Morth