Hátíðarkveðja frá knattspyrnudeild

Guðmunda Brynja 2013
Guðmunda Brynja 2013

Skemmtilegt knattspyrnuár er senn á enda. Mörg verkefni voru unnin á árinu, stór og smá. Meistaraflokkar karla og kvenna stóðu sig vel, kvennalið okkar sannaði sig meðal þeirra bestu og karlalið okkar, ungt og upprennandi, freistar þess á nýju ári að komast í úrvalsdeild.

Yngri flokka starf deildarinnar er umfangsmikið. Fjöldi iðkenda 16 ára og yngri er um 420 auk 50 barna í litla fótboltaskólanum (8. flokki). Þá eru ríflega 100 iðkendur í 2. flokki og meistaraflokkum karla og kvenna. Þannig er heildarfjöldi iðkenda á vegum knattspyrnudeildar nærri 600 talsins. Um 300 heimaleikir voru spilaðir á Selfossi þetta tímabil, Olísmótið var á sínum stað auk þess sem farið var í landvinninga í Bandaríkjunum. Það var því nóg að gera og alltaf líf og fjör á Selfossvelli.

Við erum stolt af starfinu og fótboltakrökkunum okkar. Vel menntaðir þjálfarar sinna þeim allt árið um kring. Kenna aga og ástundun, hvernig eigi að setja sér markmið og takast á við margvísleg verkefni, sem hjálpar þeim þegar út í lífið er komið. Þekkt er að krakkar og ungmenni sem stunda íþróttir eru síður til þess fallin að leiðast út í neyslu vímuefna og óreglu. Allt starf innan félagsins er því mannbætandi og hefur mikil og góð samfélagsleg áhrif.

Þá er eftirtektarvert hve Selfoss hefur skilað af sér mörgum leikmönnum í yngri landslið Íslands á undanförnum árum og þá var Guðmunda Brynja Óladóttur valin í A-landslið Íslands á þessu ári. Einnig má nefna að alls fimm leikmenn, sem leikið hafa með Selfoss undanfarin ár, hafa komist að í atvinnumennsku erlendis að undanförnu. Þá eru ungir og efnilegir leikmenn Selfoss eftirsóttir og hafa vakið athygli erlendra liða. Þetta sýnir að á Selfossi er hægt að ná markmiðum sínum og að félagið hefur allt til þess að bera fyrir góða íþróttamenn að ná árangri.

Áramótin eru skemmtilegur tími í hugum flestra og marka hjá knattspyrnufólki okkar sérstök tímamót. Nú tekur sól að hækka á lofti og æfingamót og leikir byrja aftur fullum krafti. Spennandi og skemmtilegir tímar eru því framundan.

Starf deildarinnar er umfangsmikið og þurfum við á stuðningi þínum að halda. Sem fyrr verður flugeldasala á vegum deildarinnar, sem er mjög mikilvæg fjáröflun fyrir starfsemi okkar. Þú mátt treysta því að þar verður að finna ódýrustu flugeldana í bænum og bestu bomburnar. Flugeldasalan verður í félagsheimilinu Tíbrá og munum við taka vel á móti gestum okkar með rjúkandi heitu kaffi á könnunni.

Um leið og við þökkum ykkur fyrir stuðninginn og samstarfið á liðnum árum óskum við ykkur öllum heilla og gleði á nýju ári.

Með knattspyrnukveðju,
Óskar Sigurðsson,
formaður knattspyrnudeildar.

---

Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði kvennaliðs Selfoss, var valin efnilegasti leikmaður Pepsi deildarinnar 2013 og í lok sumars spilaði hún sinn fyrsta A-landsleik fyrir Íslands hönd.
Mynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl