Heiðdís til liðs við Selfoss

Rétt í þessu var knattspyrnudeild Selfoss að ganga frá eins árs samningi við varnarmanninn Heiðdísi Sigurjónsdóttur.

Heiðdís, sem er fædd árið 1996 og kemur frá Hetti á Egilsstöðum, er ein efnilegasta knattspyrnukona landsins, hættulega hraður og hávaxin varnarmaður. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún þegar spilað 69 meistaraflokksleiki í deild og bikar með Hetti og skorað 29 mörk. Þá var hún fyrirliði Hattar á seinasta keppnistímabili.

Hún hefur verið fastamaður í U17 og U19 ára landsliðum Íslands síðustu ár þar sem hún á að baki 14 landsleiki og 1 mark. Þess má geta að í landsliðinu hefur hún spilað með Karitas, Hrafnhildi, Bergrúnu, Ernu og Katrínu Rúnars leikmönnum Selfoss.

Það er mikil ánægja að hafa tryggt Selfoss krafta þessarar efnilegu knattspyrnukonu en hún hefur verið eftirsótt af mörgum liðum í Pepsi-deildinni. Hún kemur inn í ungt og efnilegt Selfosslið sem heldur uppbyggingunni áfram með þessari undirskrift.