Hlakkar til að takast á við áskoranir

Eins og fram hefur komið á heimasíðunni stóð U-18 ára landsliðið í handbolta með Selfyssinginn Ómar Inga Magnússon í broddi fylkingar í ströngu í kringum áramótin. Liðið, sem leikur undir stjórn Einars Guðmundssonar yfirþjálfara Selfoss, tók þátt í Sparkassen Cup í Þýskalandi milli jóla og nýárs. Liðið náði 5. sæti á mótinu og var Ómar Ingi markahæstur Íslendinga á mótinu.

Aðra helgina í janúar tók liðið þátt í forkeppni Evrópumeistaramótsins í Eksjö í Svíþjóð. Ísland var í riðli með Svíþjóð, Grikklandi og Moldavíu. Tvö efstu lið riðilsins unnu sér þátttökurétt í úrslitakeppni EM sem fer fram í Póllandi 14.-24. ágúst 2014.

Eftir slæmt tap gegn Svíum í fyrsta leik komu sigurleikir gegn Moldavíu og Grikklandi sem tyggðu að liðið verður meðal þátttakenda í lokakeppni EM í ágúst. Enn á ný var Ómar Ingi markahæstur Íslendinga og dró vagninn öðrum fremur.

Ómar Ingi var heilt yfir sáttur við sína framistöðu í leikjum landsliðsins auk þess sem andinn í hópnum er alltaf góður og stutt í grínið í ferðalögunum. „Það er nauðsynlegt að hafa smá léttleika yfir þessu“ sagði Ómar Ingi. Honum gengur einnig vel með Selfoss og er búinn að spila fínan handbolta með 3. flokki og meistaraflokki. Hann segist njóta þess í botn að spila með báðum flokkum og hlakka til að takast á við þær áskoranir sem koma á seinni hluta tímabilsins. Framtíðarmarkmiðið er skýrt hjá Ómari Inga „Að verða það besta sem ég get orðið og þróa karakterinn hjá mér.“

Við óskum Ómari til hamingju með árangurinn og góðs gengis með Selfoss og landsliðinu.