Húsfyllir á öllum sýningum

Jólasýning 2013 - Þjálfarar
Jólasýning 2013 - Þjálfarar

Líf og fjör var í íþróttahúsi Vallaskóla síðastliðinn laugardag þegar Fimleikadeild Selfoss stóð fyrir árlegri jólasýningu. Sýningarnar voru alls þrjár og var húsfyllir á þeim öllum. Í ár tóku allir iðkendur deildarinnar þátt sem persónur úr Mjallhvíti og dvergunum sjö. Sjá mátti litlar kanínur, veiðimenn, jólastelpur, dverga, tré, mjallhvítar, stjúpur og nornir svo eitthvað sé nefnt. Atriðin voru hvert öðru flottari og var greinilegt að mikið var búið að leggja í undirbúning hvort sem litið var á atriðin, tónlist, ljós, búninga, förðun eða hárgreiðslur. Það er mikil reynsla sem börnin öðlast við þátttöku á sýningu sem þessari og er það gott veganesti út í lífið. Börn og þjálfarar voru hæstánægð með útkomuna og á undirtektum áhorfenda að dæma þá voru þeir ekki síður ánægðir enda búnir að fá jólaandan beint í æð.

Fimleikadeild Selfoss vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem lögðu sýningunni lið þjálfurum, foreldrum, fyrirtækjum og öðrum velunnurum og síðast en ekki síst fá börnin þakkir fyrir frábæra frammistöðu.

Hægt er að skoða og kaupa myndir frá jólasýningunni á Selfoss Fimleikamyndir á Fésbókinni.

ob

---

Stoltir þjálfarar og aðstandendur að lokinni glæsilegri sýningu.
Mynd: Gissur Jónsson