Kveðja frá Knattspyrnudeild Umf. Selfoss

Steindor1
Steindor1

Félagi okkar, Steindór Sverrisson er fallinn frá langt um aldur fram.

Hverju samfélagi sem og frjálsum félagasamtökum er lífsnauðsyn að eiga öfluga stuðningsmenn og bakhjarla sem standa vaktina og eru tilbúnir til að svara kalli um aðstoð þegar það kemur. Þetta eru liðsmennirnir sem halda þessum samtökum gangandi. Þannig liðsmann átti knattspyrnudeild Umf. Selfoss einmitt í Steindóri Sverrissyni sem alltaf svaraði kallinu, stóð vaktina í miðasölu, flaggaði í bænum á leikdegi, eldaði ofan í leikmenn og gestalið eftir heimaleiki og svo mætti áfram telja.

Steindór var sjálfur iðkandi hjá knattspyrnudeildinni á yngri árum, kappsamur og ákveðinn eins og ávallt þegar kom að íþróttinni hjá honum. Í seinni tíð stóð hann svo vaktina sem foreldri á hliðarlínunni og sjálboðaliði, ávallt jafn hvatvís og jákvæður.

Steindór var kraftmikill og glaðlyndur félagi. Hann hafði mikla ástríðu fyrir fótboltanum, tók fullan þátt í gleðistundum þegar vel gekk, nú síðast sl. haust er fyrsti stóri titill deildarinnar vannst, bikarmeistaratitill kvenna. Enda var hann gallharður Selfyssingur og vildi sjá liði sínu ganga sem best. Hann mætti á nánast alla leiki og studdi við bakið á liðinu í blíðu og stríðu. Steindór var heldur ekki feiminn við að segja sína skoðun og það var gaman að ræða við hann um fótbolta. Hann var duglegur að hrósa því sem vel var gert en líka gagnrýninn ef honum þótti ástæða til. Hann hafði líka efni á því, var kröfuharður á sitt lið en ekki síður á sjálfan sig. Það var hverjum manni ljóst er þekktu hann og fylgdust með harðvítugri baráttu hans um árabil við hinn illvíga sjúkdóm sem felldi hann að lokum.

Nú kveðjum við þennan öfluga liðsmann okkar af auðmýkt og með djúpu þakklæti. Hans verður sárt saknað. Mestur er þó missir fjölskyldunnar og sendum við Hjördísi og börnum þeirra okkar einlægustu samúðarkveðjur og megi þau öðlast styrk til að takast á við sorg sína.

Blessuð sé minningin um okkar góða félaga Steindór Sverrisson.

F.h. knattspyrnudeildar Umf. Selfoss
Jón Steindór Sveinsson, formaður