Lokaundirbúningur fyrir Íslandsmótið í knattspyrnu

Knattspyrna - Æfingaferð á Spáni
Knattspyrna - Æfingaferð á Spáni

Undirbúningur meistaraflokka Selfoss fyrir Íslandsmótið í knattspyrnu er á lokametrunum en strákarnir hefja leik í 1. deildinni, sem að þessu sinni kallast Inkasso-deildin, laugardaginn 7. maí þegar nýliðar Leiknis frá Fáskrúðsfirði koma í heimsókn. Stelpurnar hefja hins vegar leik í Pepsi-deildinni á útivelli í Eyjum gegn ÍBV miðvikudaginn 11. maí en fyrsti heimaleikur þeirra er gegn Stjörnunni viku síðar.

Sumarið leggst vel í Gunnar Rafn Borgþórsson yfirþjálfara deildarinnar sem segir mikilvægast af öllu að gera sumarið eftirminnilegt fyrir alla. Njóta þess að mæta með fjölskylduna á völlinn og horfa á góða knattspyrnu. „Liðin koma vel undirbúin til leiks og hlakka til að hefja mótið. Við hvetjum stuðningsmenn til að hjálpa okkur að gera sumarið eftirminnilegt.“ sagði Gunnar Rafn áður en hann fékk sér ís í góða veðrinu.

Það eru ekki bara leikmenn sem eru að undirbúa tímabilið því að starfsfólk vallarins vinnur hörðum höndum að því að gera grasið á JÁVERK-vellinum klárt fyrir sumarið en að sögn Sveinbjörns Mássonar, vallarstjóra, kemur völlurinn ekki nógu vel undan vetri. Því var brugðið á það ráð að breiða akrýldúk yfir völlinn til þess að koma meiri hita í svörðinn.

„Það er auðvitað bara apríl ennþá en völlurinn hefur oft verið í betra standi á sama tíma. Það kólnar enn mikið á nóttunni og þess vegna erum við að breiða dúkinn yfir hann til þess að halda sólarhitanum lengur í vellinum og komum þannig vonandi lífi í hann." sagði Sveinbjörn í samtali við vefinn Sunnlenska.is.

Af þessum sökum fer fyrsti leikur tímabilsins gegn austanmönnum í Leikni fram á gervigrasinu.

---

Liðin fóru í vel heppnaða æfingaferð til Spánar eftir páska.
Ljósmynd/Umf. Selfoss

Selfossvöllur er klæddur dúk til að koma lífi í grasið.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/GJ

Knattspyrna - Akrýldúkur á JÁVERK-völlinn