MÍ | Kristinn Þór Íslandsmeistari

37087850_1813083412071532_1345921104207675392_n
37087850_1813083412071532_1345921104207675392_n

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum var haldið á Sauðárkróki 14.-15.júlí sl. HSK/Selfoss sendi sautján keppendur til leiks sem stóðu sig allir með miklum sóma.

Kristinn Þór Kristinsson stóð sig mjög vel að vanda og varð Íslandsmeistari í 800 m hlaupi á tímanum 1:52,50 mín og krækti sér einnig í silfur í 1.500 m hlaupi eftir æsispennandi hlaup þar sem mjög mjótt var á fyrsta og öðru sæti, Kristinn hljóp á tímanum 4:05,65 mín.

Fjóla Signý Hannesdóttir mætti á brautina og sýndi og sannaði að hún er komin til baka eftir barnsburð. Hún vann til silfurverðlauna í 400 m grindahlaupi á tímanum 63,49 sek, rétt á eftir sigurvegaranum. Fjóla Signý hljóp siðan 100 m grindahlaup á tímanum 14,88 sek. sem færði henni bronsverðlaun.

Hin unga og efnilega Eva María Baldursdóttir vippaði sér yfir 1,65 m í hástökkinu við mjög erfiðar aðstæður en hellirigning var á meðan hástökkið stóð yfir og dugði það til bronsverðlauna. Að lokum var það Dagur Fannar Einarsson, efnilegur grindahlaupari, sem hljóp 400 m grindahlaupið á tímanum 58,63 sek og hlaut bronsverðlaun að launum. 

Úrslit mótsins

Næsta verkefni frjálsíþróttafólks HSK/Selfoss er Bikarkeppni FRÍ sem fram fer i Borgarnesi 28. júlí.