Naumt tap í Eyjum

Katrín Ósk Magnúsdóttir
Katrín Ósk Magnúsdóttir

Á laugardag fóru stelpurnar okkar til Vestmannaeyja þar sem þær mættu ÍBV í Olísdeildinni. Fyrri hálfleikur var mjög jafn og spennandi og leiddi Selfoss með einu marki í hálfleik 14-15. Sama var upp á teningnum fram yfir miðjan seinni hálfleik en eftir að staðan var jöfn 23-23 sigu heimakonur fram úr og unnu að lokum þriggja marka sigur 30-27.

Atkvæðamestar Selfyssinga voru Þuríður Guðjónsdóttir og Carmen Palamaria með sjö mörk hvor, Tinna Soffía Traustadóttir með sex mörk og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir með fimm mörk. Kara Rún Árnadóttir og Hildur Einarsdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Katrín Ósk Magnúsdóttir stóð í markinu og varði 13 skot þar af fyrsta vítið í leiknum þannig að hún var búin að verja fimm víti í röð þegar ÍBVskoraði úr öðru víti sínu í leiknum.

Eftir leikinn er Selfoss komið niður í 11. sæti deildarinnar með 7 stig en það er stutt í næstu lið fyrir ofan. Næsti leikur liðsins er í N1 höllinni í Mosfellsbæ á laugardag kl. 13:30 þegar stelpurnar sækja botnlið Aftureldingar heim.

---

Katrín Ósk Magnúsdóttir varði fimm víti í röð.
Mynd: Inga Heiða Heimisdóttir.