Öruggur sigur á Mílunni

Selfoss merki
Selfoss merki

Selfoss vann góðan útisigur á félögum sínum í Mílunni 19-24 í skemmtilegum leik í Vallaskóla í kvöld.

Selfoss byrjaði betur í upphafi leiks og komst í 3-7 þegar fyrri hálfleikur var u.þ.b. hálfnaður. Þá var Mílan búið að brenna af tveimur vítum en þeir fengu ansi mörg víti í upphafi leiks. Staðan í hálfleik var 7-12 fyrir Selfoss.

Seinni hálfleikinn hóf Mílan á að skora tvö fyrstu mörkin en Selfyssingar voru fljótir að gefa í aftur og komust í 12-17 og svo í 14-20. Þá slökuðu okkar strákar full mikið á og hleyptu Mílan inn í leikinn sem  minnkaði muninn niður í 18-20. Nær fengu þeir grænu þó ekki að komast og Selfoss vann nokkuð sannfærandi fimm marka sigur, 19-24.

Selfyssingar spiluðu framliggjandi vörn sem Mílan réð illa við að komast í gegn. Þessi vörn gekk vel hjá Selfyssingum með Helga Hlynsson öflugan í markinu en hann átti góðan leik, var með 23 varin skot, þar af eitt víti sem gerir 56% markvörslu. Gaman að sjá Helga koma sterkan inn í leik liðsins aftur en hann hefur verið að jafna sig á meiðslum það sem af er vetri.

Andri Már var markahæstur með 6 mörk, þar af 2 úr vítum. Hergeir Grímsson og Elvar Örn skoruðu fjögur mörk hvor, Guðjón Ágústsson og Hörður Másson voru með þrjú mörk, Gunnar Páll, Ómar Vignir, Jóhann Erlingsson og Árni Guðmundsson með eitt mark hver.

Selfoss er nú í fjórða sæti deildarinnar með 14 stig og á einn leik eftir fyrir jólafrí. Það er leikur á móti Hömrunum á Akureyri sem fram fer sunnudaginn 20. desember fyrir norðan.

Sjá einnig umfjöllun á Sunnlenska.is og viðtal við Hergeir á FimmEinn.is.