Selfoss á þrjú lið í undanúrslitum

Í gær var dregið í undanúrslit í bikarkeppni yngri flokka HSÍ en Selfoss á enn þrjú lið í keppni og stefna þau öll á að komast í úrslitaleikina sem fara fram 28. febrúar.

Annar flokkur karla lagði ÍBV 32-30 í hörkuleik á Selfossi og tekur á móti Val í undanúrslitum. Þeir höfðu fyrr í keppninni lagt Þróttara í Laugardalshöll 28-35 í kaflaskiptum leik sem heimamenn leiddu í hálfleik.

Þriðji flokkur kvenna lagði Gróttu naumlega 22-21 í æsispennandi leik á Selfossi og tekur á móti Fylki í undanúrslitum. Stelpurnar höfðu áður lagt ÍBV að velli 29-27 í öðrum spennutrylli á heimavelli.

Yngra árið í 4. flokki karla sigraði ÍR örugglega 23-13 á heimavelli og sækir ÍBV eða Fram heim í undanúrslitum en þessi lið eiga eftir að mætast. Áður höfðu Selfyssingar lagt Hauka að velli í keppninni 27-14 á útivelli en þessir strákar eru gríðarlega efnilegir.

Ekki er búið að staðfesta leikdaga í undanúrslitum en leikirnir eiga að spilast fyrir 22. febrúar.