Selfyssingar leiða úrslitaeinvígið

Handbolti - Dijana Radojevic
Handbolti - Dijana Radojevic

Selfoss er komið 1-0 yfir í úrslitaeinvíginu um laust sæti í Olís deildinni næsta tímabil, en liðið sigraði KA/Þór 29-24 á heimavelli á sunnudag.

Selfoss byrjaði betur og skoraði þrjú fyrstu mörkin og hélt forystunni fyrsta korterið. Þá tóku norðanstelpur við sér og jöfnuðu 7-7 og komust svo yfir 7-8. Jafnt var á öllum tölum það sem eftir lifði hálfleiksins en staðan var 11-11 í hálfleik.

Þjálfarar Selfoss nýttu leikhléið greinilega vel því heimakonur skoraði þrjú fyrstu mörkin í seinni hálfleiknum og leiddu það sem eftir lifði leiks. Mestur var munurinn sjö mörk, 21-14 eftir 45 mínútna leik. Leikmenn KA/Þór voru þó aldrei á því að gefast upp og börðust vel fram á síðustu mínútu en þetta var hörku leikur enda mikið í húfi fyrir bæði lið. Lokatölur 29-24 fyrir Selfoss og mikilvægur sigur í höfn.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Dijana Radojevic var langmarkahæst Selfyssinga með 13 mörk, Elva Rún Óskarsdóttir og Kristrún Steinþórsdóttir skoruðu 3 mörk, Hulda Dís Þrastardóttir, Margrét Jónsdóttir, Ída Bjarklind Magnúsdóttir og Adina Ghidoarca 2 mörk hver og Arna Kristín Einarsdóttir 1 mark. Markvörðurinn Katrín Ósk Magnúsdóttir skoraði eitt mark ásamt því að verja 19 bolta í markinu, sem gerir 44% markvörslu.

Annar leikurinn í einvíginu fer fram á Akureyri á morgun miðvikudag kl. 18:00 og þriðji leikurinn fer fram í íþróttahúsi Vallaskóla föstudaginn 5. maí klukkan 20:15. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki spilar í Olís-deildinni næsta tímabil.

---

Dijana var langatkvæðamest Selfyssinga í leiknum.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Jóhannes Ásgeir Eiríksson