Silfur til Selfyssinga í sveitakeppninni

Júdó - Sveit Selfoss
Júdó - Sveit Selfoss

Selfyssingar urðu í öðru sæti í sveitakeppni karla í júdó árið 2018 en keppnin fór fram um helgina í umsjón Júdofélags Reykjavíkur að þessu sinni.

Keppnin var fyrst haldin árið 1974 og var þetta í 43. skiptið sem keppt var en hún féll niður 1993 og 2002. Því miður sendu ekki öll félög sveitir í þessa sögulegu og mest spennandi keppni hvers árs sem sveitakeppnin jafnan er og skipar einn stærstan sess í sögu hvers félags og er það áhyggjuefni.

Það voru aðeins fjórar sveitir skráðar til leiks en á síðustu stundu forfallaðist einn keppandinn hjá KA og ekki náðist í varamann og KA varð að hætta við þátttöku svo sveitirnar sem kepptu voru sveitir JR-A og JR -B auk sveitar Selfoss. Hvorugt félagið gat stillt upp sínu sterkasta liði að þessu sinni þar sem nokkrir keppendur þeirra, Breki Bernhardsson, Egill Blöndal og Ægir Valsson, eru í Japan við æfingar og keppni og eins er Logi Haraldsson ekki búinn að ná sér að fullu af meiðslum frá því í haust.

Keppnin var engu að síður ákaflega skemmtileg eins og jafnan er í sveitakeppni og margar skemmtilegar viðureignir sem gjarnan enduðu á ippon kasti. Leikar fóru þannig þegar upp var staðið að sveit JR-A sigraði og er Íslandsmeistari 2018 í sjötta skipti í röð og í 18. skipti alls. Í öðru sæti varð sveit Selfoss og í því þriðja sveit JR-B.

Selfyssingurinn Þór Daviðsson var án efa glímumaður mótsins en hann vann báðar sínar viðureignir þar á meðal á móti Þormóði Jónssyni margföldum Íslandsmeistara og Ólympíufara.

Sjá nánar í frétt á vef JSÍ.

---

Á myndinni er silfursveit Selfyssinga f.v. Þór Davíðsson, Úlfur Þór Böðvarsson, Ýmir Örn Ingólfsson, Hrafn Arnarsson og Haukur Þór Ólafsson.