Skipbrot Selfyssinga í seinni hálfleik

Olísdeildin
Olísdeildin

Selfoss sótti Fylki heim í kaflaskiptum leik í Olís deild kvenna á laugardag.

Selfyssingar voru sterkari lengst af fyrri hálfleiks og leiddu með tveim mörkum 14-16 þegar liðin gengu til búningsherbergja. Heimakonur sneru leiknum hins vegar sér í vil og yfirspiluðu Selfoss í seinni hálfleiknum. Lið Selfoss virtist ekki eiga nein svör við leik Fylkis sem sigruðu 39-29.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði tíu af mörkum Selfyssinga, Adina Maria Ghidoarca var með sjö, Kristrún Steinþórsdóttir fimm, Steinunn Hansdóttir og Hildur Öder Einarsdóttir tvö mörk hvor og Hulda Dís Þrastardóttir, Elena Elísabet Birgisdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir eitt mark hver.

Nánar er fjallað um leikinn á vefnum FimmEinn.is auk þess sem þar má finna viðtal við Sebastian Alexandersson þjálfara Selfoss.

Eftir 17 umferðir er Selfoss í 7. sæti Olís-deildarinnar með 20 stig. Liðið tekur á móti Fram í íþróttahúsinu í Vallaskóla á Selfossi í næstu umferð, laugardaginn 6. febrúar kl. 14.

Rétt er að geta þess að miðvikudaginn 10. febrúar kl. 19:30 tekur liðið á móti Íslandsmeisturum Gróttu í fjórðungsúrslitum Coca Cola bikarsins í íþróttahúsi Vallaskóla.