Strákarnir í 5. flokki héldu fótboltamaraþon í 8 tíma

Laugardaginn 28. janúar sl. fór fram hið árlega fótboltamaraþon hjá 5. flokki karla í knattspyrnu. Strákarnir spiluðu fótbolta með fjölbreyttu sniði í heila 8 klukkutíma, eða frá kl. 9-17. Þeir voru orðnir ansi dasaðir í enda dags, enda hellings púl að spila fótbolta samfleytt í svona langan tíma. Allir stóðu þeir sig eins og hetjur, bæði í maraþoninu sjálfu sem og í áheitasöfnuninni, en hún fór fram í vikunum tveimur á undan maraþoninu. Það var oft svolítið kalt á strákana þegar þeir örkuðu um götur bæjarins að safna áheitum, en þeir létu sig hafa það því söfnunin er stærsti liðurinn í fjáröflun þessara stráka fyrir N1 mótið sem fer fram á Akureyri í sumar. Viljum við koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem styrktu strákana með áheitum sínum.

Þegar maður spilar fótbolta svona lengi í einu þarf maður að næra sig reglulega. Til að gera okkur kleift að gefa öllum þessum strákum að borða var leitað á náðir nokkurra fyrirtækja hér í bæ sem og annars staðar og komum við hreint ekki að tómum kofanum þar. Viljum við hér með koma á framfæri miklum þökkum til eftirtalinna fyrirtækja: Guðnabakarí, Krás, MS Selfossi, Bananar ehf. og Vífilfell.

Með kveðju;
Foreldraráð 5. flokks karla í knattspyrnu, Selfossi.