Súrt tap gegn toppliðinu

Sarah Boye
Sarah Boye

Stelpurnar tóku á móti Valskonum í Hleðsluhöllinni í kvöld. Leikurinn fór 27-28 fyrir Val eftir mark á síðustu sekúndubrotum leiksins.

Leikurinn var jafn fyrsta korterið en síðan setti Valur í næsta gír og fór inn í hálfleik með 5 marka forskot, 11-16. Valskonur byrjuðu seinni hálfleik betur og náðu mest sjö marka forskoti, 13-20. Þá hrukku stelpurnar okkar í gang og það með látum. Selfoss var búið að jafna leikinn þegar um fimm mínútur voru eftir, 25-25 og komust síðan tveimur mörkum yfir í kjölfarið. Klaufaleg mistök í sókninni ásamt mistökum í dómgæslu varð til þess að Valskonur náðu að jafna leikinn aftur. Valur átti síðan síðustu sókn leiksins sem endaði með marki á svipuðum tíma og leiktíminn rann út og báru þær sigur úr býtum. 

Selfoss er því áfram í botnsætinu með 4 stig eftir 12 umferðir en mega taka margt jákvætt úr þessum leik. Þar má nefna Tinnu Sigurrós Traustadóttur sem spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik og skoraði þrjú mörk. Þess má geta að hún er ekki nema 14 ára gömul!

Mörk Selfoss:  Sarah Boye 6, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir 5/2, Perla Ruth Albertsdóttir 4, Hulda Dís Þrastardóttir 4, Tinna Sigurrós Traustadóttir 3, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 3, Carmen Palamariu 1, Rakel Guðjónsdóttir 1.

Varin skot: Katrín Ósk Magnúsdóttir 9 (26%).

Nánar er fjallað um leikinn á Sunnlenska.is og Mbl.is. Leikskýrslu má sjá hér.

Næsti leikur hjá stelpunum er útileikur gegn Haukum á þriðjudaginn kemur.
____________________________________
Mynd: Sarah Boye var markahæst í kvöld með 6 mörk.
Umf. Selfoss / JÁE