Takk fyrir stuðninginn

Handbolti - Stuðningsfólk
Handbolti - Stuðningsfólk

Frábæru keppnistímabili handknattleiksdeildarinnar á Selfossi er nú lokið. Barna- og unglingastarfið hefur skilað góðum árangri og er eftir því tekið um allt land hve öflugt uppbyggingarstarf hefur verið unnið á Selfossi undanfarin ár.

Meistaraflokkar bæði karla og kvenna náðu besta árangri sínum frá upphafi í Íslandsmótinu, kvennaliðið náði 6. sæti, sem er frábær árangur, liðið stóð sig sannarlega vel og sýndi mikinn styrk í vetur.

Karlaliðið náði 2. sæti í Íslandsmótinu sem er besti árangur frá upphafi, komst í undanúrslit í bikarkeppninni  og sýndi frábæra frammistöðu í umspili við FH í úrslitakeppni Olis-deildarinnar.  Liðið var þar eingöngu sekúndum frá sæti í úrslitarimmunni. Frábær árangur hjá ungu og efnilegu liði.

Í vetur hafa Selfyssingar og Sunnlendingar stutt frábærlega við liðin okkar með góðri mætingu á leiki og frábæra stemmingu á áhorfendapöllunum. Það var því erfitt að þurfa að vísa traustum stuðningsmönnum frá þegar uppselt var í íþróttahús Vallaskóla á tveimur síðustu leikjunum og biðjum við stuðningsmenn okkar afsökunar á því að hafa ekki getað komið öllum í húsið en auðvitað var frábært að hafa fullt hús. Næsta vetur verða handboltaleikir spilaðir í íþróttahúsinu Iðu og þar er nú unnið að því að endurnýja gólf og sett verður upp ný stúka. Við bindum vonir við að með breytingum megi koma fleiri áhorfendum í Iðu en hægt var í Vallaskólahúsinu þannig að ekki þurfi að vísa stuðningsmönnum frá úrslitaleikjum. Þessi staða sýnir auðvitað þörfina á íþróttahúsi í fullri stærð sem getur tekið á móti íþróttaviðburðum af þessari stærð og mikilvægi fyrir samfélagið.

Við á Selfossi eigum nú fulltrúa í nær öllum landsliðum Íslands í handknattleik, þar af tvo í A-landsliði kvenna og áttum fimm fulltrúa í A-landsliði karla í Noregi. Þá er fjöldi Selfyssinga í yngri landsliðum. Þessar staðreyndir sýna fram á öflugt og markvisst starf sem stjórn, þjálfarar og sjálfboðaliðar félagsins eru ákveðnir í að halda áfram. Til þess þurfum við áfram ykkar stuðning en við munum mæta sterk til leiks í haust. Með frammistöðu sinni í vetur vann karlaliðið sér þátttökurétt í Evrópukeppni og nú liggur fyrir að taka ákvörðun um hvort farið verði í það stóra verkefni á næsta keppnistímabili. Það er mjög spennandi en krefjandi verkefni, ekki síst fjárhagslega og til þess þarf mikla vinnu og samstöðu.

Um leið og ég þakka þessu öfluga íþróttafólki okkar fyrir frábæra skemmtun og spennu í vetur, þakkar stjórn handknattleiksdeildarinnar áhorfendum og stuðningsmönnum fyrir frábæran stuðning og skemmtilega samveru í vetur.

Þórir Haraldsson,
formaður handknattleiksdeildar.