Tap á móti stórliði Vals

IMG_0227-resize1 2
IMG_0227-resize1 2

Meistaraflokkur kvenna í handbolta tók á mót sterku liði Vals í gærkvöldi sem situr í öðru sæti deildarinnar. Fyrri hálfleikur var góður hjá Selfoss og voru kempurnar í Val í basli með ungu stelpurnar í Selfoss. Hálfleikstölur voru 11-14 fyrir Val.

Síðari hálfleikinn byrjaði vel hjá Selfoss en þegar um tíu mínútur voru liðnar af honum var staðan 13-16. Þá  kom afleitur fimm mínútna kafli þar sem Selfoss spilaði of stuttar sóknir og fengu fyrir vikið á sig nokkur mörk úr hraðaupphlaupum. Á þessum kafla skoraði Valur sex mörk en Selfoss ekkert og breytti stöðunni í 13-22. Selfoss náði aftur tökum á leiknum en erfitt er að vinna upp svo mikinn mun á móti sterku liði Vals og hélst munur á milli liðanna út leikinn. Lokatölur leiksins 23-30 fyrir Val.

Eins og áður hefur komið fram hefur Selfoss ekki náð að tefla fram sínu sterkasta liði í nokkurn tíma en meiðsli eru að hrjá nokkra leikmenn sem vantaði í leikinn í gær en Tinna og Hulda náðu að spila þrátt fyrir að vera ekki alveg heilar. Þrátt fyrir þetta var leikurinn góður og gaman að sjá hvað stelpurnar náðu að hanga í Valsliðinu og var frammistaða liðsins í heild góð. Það verður þó að taka fram góða frammistöðu Katrínar Óskar en hún leysti Áslaugu af í markinu. Þessi ungi og efnilegi leikmaður varði 17 skot en Valur náði t.d ekki að skora úr víti, hún lokaði markinu í þessi fjögur skipti sem Valur fékk tækifæri á vítapunktinum.

Markaskorun var eftirfarandi: Hanna 8 mörk, Carmen 5 mörk, Kara 4 mörk, Hildur 3 mörk, Perla, Margrét og Thelma allar með eitt mark.

Næsti leikur hjá mfl. kvenna er á laugardaginn á móti ÍBV en sá leikur er spilaður í Vestmannaeyjum.

Næsti leikur hjá mfl. karla er hér á Selfossi, föstudaginn 24. janúar, klukkan 20:00 en þá taka þeir á móti Fylki. Hvetjum fólk til að mæta á þann leik en hvert stig er mikilvægt í toppbaráttunni í 1. deildinni.

Íþróttavefurinn Sport.is tók skemmtileg viðtöl við Katrínu Ósk og Tinnu Soffíu.