Þór og Egill sigursælir í sveitakeppninni

Þór Davíðsson
Þór Davíðsson

Fimm sveitir kepptu í sveitakeppni Júdósambands Íslands sem fór fram laugardaginn 16. nóvember. Selfoss sendi sveit til keppni þó ekki væri hægt að fullmanna hana þetta árið. Hún var skipuð þeim Þór Davíðssyni, Agli Blöndal og Grím Ívarssyni. Aðeins þrír keppendur en full sveit er skipuð fimm einstaklingum. Þannig var ljóst fyrirfram að erfitt yrði að sigra þessa keppni og þar að auki var léttasti keppandinn í sveitinni, hann Grímur, aðeins 15 ára. Þrátt fyrir að hafa lent í 4. sæti gekk keppendum Selfoss vel og voru sigursælir.

Mótið var mjög líflegt og viðureignir spennandi og glæsilegar, Þór Davíðsson var í banastuði og sigraði andstæðinga sína með yfirburðum, ippon, þó hann væri að keppa við mun þyngri menn eins og Karl Stefánsson úr Draupni og Björn Sigurðsson úr Ármanni. Þór varð þó að láta í minni pokann fyrir Þormóði Jónssyni sem sýndi sínar bestu hliðar þennan daginn og  hefur aldrei verið betri.

Egill Blöndal sigraði þá Karl Erlingsson og Kolbein Kristjánsson af öryggi á ippon, fullnaðarsigri, en varð að játa sig sigraðan gegn Þorvaldi Blöndal margföldum Íslands- og Norðurlandameistara. Viðureignir þeirra verða sífellt jafnari og ljóst að Þorvaldur þarf að halda fast um kórónuna ætli hann ekki að láta Egill ná henni.

Grímur Ívarsson stóð sig með prýði þó ungur sé og tapaði naumlega fyrir Tómasi Tómassyni, en hafði verið yfir á stigum fram á síðustu sekúndur viðureignarinnar. Hann sigraði Kristján Örn Hansson úr Ármanni glæsilega á ippon.

gs

Þór sigurreifur í Laugardalshöllinni.

Mynd: Garðar Skaptason.