Tíu gull, sjö silfur og fimm brons á Gaflaranum

Nokkrir krakkar frá Selfossi gerðu góða ferð í Hafnarfjörðinn á laugardaginn þegar þau tóku þátt í opnu frjálsíþróttamóti þar. Krakkarnir hafa verið dugleg að slá metin í sumar. Á mótinu féllu 6 HSK-met í viðbót og krakkarnir komu hlaðin verðlaunum heim.

Teitur Örn Einarsson, 14 ára, vann spjótkastið þegar hann kastaði 46,17 m. 
Fannar Yngvi Rafnarsson, 14 ára, vann sigur í 300 m grindahlaupi á 45,62 sek og bætti um leið eigið HSK-metið um 3 sekúndur. Hann sigraði einnig í þrístökki með 11,12 m og varð annar í 100 m hlaupi á 12,65 sek. 
Styrmir Dan Steinunnarson, 13 ára, sigraði allar greinarnar sem hann keppti í. Hann hljóp 300 m grindahlaup á 50,83 sek sem er nýtt HSK-met, kastaði spjóti 48,68 m, stökk 10,76 m í þrístökki og hljóp 100 m hlaup á 13,50 sek. 
Harpa Svansdóttir, 13 ára, sigraði þrístökk á nýju HSK-meti 10,38 m. Hún vann þrenn silfurverðlaun, í 300 m grindahlaupi á 49,79 sek sem er nýtt HSK-met og undir gamla Íslandsmetinu líka en sú sem vann hlaupið var 6/100 úr sek á undan henni í mark, í spjótkasti með 27,59 m, sem er mikil bæting, og í 400 m hlaupi á 66,78 sek. Harpa varð svo þriðja í 100 m hlaupi á 14,17 sek. 
Halla María Magnúsdóttir, 13 ára, sigraði þrjár greinar, 100 m hlaup á 13,37 sek, spjótkast með 36,60 m og kringlukast með 35,62 m, sem er HSK-met. Hún varð önnur í þrístökki með 9,24 m og í þriðja sæti í 400 m hlaupi á 66,72 sek og í 300 m grindahlaupi á 54,32 sek. 
Guðjón Baldur Ómarsson, 12 ára, vann bronsverðlaun í spjótkasti með 25,93 m og stóð sig einnig vel í þrístökki og 100 m hlaupi. 
Kapítóla Rún Stefánsdóttir, 12 ára, var að keppa á sínu fyrsta móti og stóð sig mjög vel í 100 m hlaupi. 
Helga Margrét Óskarsdóttir, 11 ára, vann gullverðlaun í þrístökki með 8,20 m og í spjótkasti með 19,52 m. Hún vann einnig tvenn silfurverðlaun, í 100 m hlaupi á 15,47 sek og í 400 m hlaupi á nýju HSK-meti, 74,40 sek. Ásta Sól Stefánsdóttir, 11 ára, var rétt við verð-launapallinn í 400 m hlaupi á 81,50 sek og stóð sig einnig vel í 100 m hlaupi. 
Helena Ágústsdóttir, Hildur Helga Einarsdóttir og Unnur María Ingvarsdóttir, allar 10 ára, kepptu í 60 m spretthlaupi, boltakasti og langstökki og bættu sig allar í a.m.k. einni grein. Þær fengu svo eina stúlku úr FH með sér til að keppa í 4x200 m boðhlaupi sem þær hlupu frábærlega, á 2:38,24 mín. 
Einnig var keppt í boðhlaupum og þar tóku flestir krakkarnir þátt en hlupu mörg í blönduðum sveitum með krökkum úr öðrum liðum og unnu þar tvenn gullverðlaun og ein bronsverðlaun. Mótið í Hafnarfirði var fín upphitun hjá krökkunum fyrir Unglingalandsmótið sem verður á Selfossi um komandi helgi. Þar ætlar stór hópur frá okkur að keppa og er mjög mikil tilhlökkun í okkur öllum að takast á við það.

Mynd: Fannar, Harpa, Halla María og Pétur Már á Gogga galvaska í sumar.