Tvö góð stig á móti KR

Matti
Matti

Selfoss tók á móti KR í gærkvöldi en þessi lið berjast um sæti úrslitakeppninni í vor. Selfyssingar sýndu gestrisni í upphafi og leyfðu KR-ingum að komast í 0-3. Þá tóku okkar menn við sér og náðu að jafna í stöðunni 8-8 þegar 20 mínútur voru liðnar af leiknum. Selfoss leiddi í hálfleik 12-10. Eftir leikhlé jókst munurinn jafnt og þétt og var sigurinn aldrei í hættu. Mestur var munurinn sjö mörk, í stöðunni 21-14. Gulu kallarnir voru duglegir að dæma víti á Selfoss en KR skoraði þriðjung marka sinna úr vítum. Alls fengu þeir dæmd átta víti og náðu að skora úr sex. Lokatölur urðu 24-18 fyrir Selfoss sem heldur áfram að safna stigum í deildinni og situr sem fastast í þriðja sætinu. Selfoss átti góðan leik á móti KR með gamla refinn Sebastian í markinu sem átti fínan leik fyrir aftan þétta vörnina.

Markahæstur í liði Selfoss var Matthías Örn með fimm mörk. Hörður Másson og Andri Már skoruðu fjögur, Hergeir Grímsson og Daníel Arnar þrjú mörk hvor, Egill Eiríksson skoraði tvö, Guðjón Ágústsson, Egidijus Mikalonis og Jóhann Erlingsson skoruðu allir eitt mark. Sebastian átti frábært kvöld, varði 23 bolta, var með 59% markvörslu.

Næsti leikur liðsins er föstudaginn 13. febrúar á móti Fjölni. Sá leikur fer fram í Íþróttamiðstöðinni Grafarvogi og hefst klukkan 19:30

Á mynd: Matthias Örn Halldórsson

Staðan 30.01.2015