Tvö stig í súginn á Akureyri

Handbolti - Ragnarsmótið Elvar Örn
Handbolti - Ragnarsmótið Elvar Örn

Selfyssingar töpuðu naumlega þegar þeir sóttu Akureyringa heim í Olís-deild karla í gær.

Akureyringar voru sterkari í fyrri hálfleik en okkar strákar bitu reglulega frá sér og komu í veg fyrir að heimamenn næðu að stinga af. Staðan í hálfleik var 11-9 Akureyri í vil.

Lengstan hluta seinni hálfleiks virtust heimamenn ætla að sigla þægilegum sigri í höfn. Þegar rúmar tíu mínútur voru eftir var staðan 21-17 en þá kom góður kafli Selfyssinga sem jöfnuðu í 23-23, og útlit fyrir spennandi lokamínútu. Akureyringar skoruðu hins vegar tvö seinustu mörk leiksins og unnu 25-23.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Elvar Örn Jónsson fór fyrir liði Selfyssinga og skoraði 10 mörk. Einar Sverrisson skoraði 5 mörk, Teitur Örn Einarsson 4. Alexander Már Egan 3 og Guðni Ingvarsson 1. Helgi Hlynsson varði 13 skot í leiknum og Einar Ólafur Vilmundarson 1.

Að loknum fjórtán umferðum er Selfoss í fimmta sæti með 14 stig. Næsti leikur strákanna er fimmtudaginn 8. desember þegar þeir taka á móti FH á heimavelli kl. 19:30.

---

Elvar Örn Jónsson átti stórleik fyrir Selfyssinga.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Jóhannes Ásgeir Eiríksson