Viðtal við Arnar Gunnarsson meistaraflokksþjálfara

Í tilefni af fyrsta leik meistaraflokks karla gegn Gróttu á föstudaginn 28. september. kl 19:30. Þá settist heimasíðan niður með Arnari Gunnarssyni þjálfara meistaraflokks karla og spurði hann um komandi vetur og fyrsta leik.

 

Hvernig leggst komandi vetur í þig?

Það er alltaf mikil tilhlökkun þegar nýjar leiktíðir hefjast. Veturinn er uppáhalds tíðin mín og fátt er skemmtilegra að mínu mati en handboltavertíðin. Við stefnum á að standa okkur betur en á síðustu leiktíð.

Fyrsti leikur vetrarins er gegn Gróttu á nesinu, hvernig meturðu möguleikana?

Eg er alltaf bjartsýnn fyrir alla leiki og tel því möguleika okkar góða. Grótta er með besta lið deildarinnar og landsliðsþjálfara við stjórnvölinn. Einnig hefur Grótta afar sterkan heimavöll og því er um afar erfiðan leik að ræða. Við ætlum engu að síður að gera það sem teljum að þurfi til að knýja fram sigur.

Hvernig hafa nýju leikmennirnir komið inn í hópinn?

Báðir hafa staðið vel. Jóhann Gunnarsson kemur frá Fjölni en er uppalinn á Akureyri. Hann eykur breidd hjá okkur til muna og á eftir að hjálpa liði okkar mikið. Einar Pétur Pétursson kemur frá Haukum og styrkir okkur verulega, bæði sóknarlega sem og varnarlega. Báðir eru ungir leikmenn sem vilja og ætla sér mikið. Þeir falla mjög vel í hópinn.

Í ný útkomni spá er Selfoss spáð 4-5 sæti, er það raunhæf spá ?

Það hlýtur að vera. Menn hljóta að vita hverju þeir eru að spá er þeir taka þátt. Ef við Selfyssingar erum ekki sáttir við þessa spá er það okkar að sýna fram á að hún sé óraunhæf.

Nú eru tvö ný lið í deildinni, Þróttur og Fylkir það hlítur að vera gott fyrir deildina?

Það er ekki bara gott fyrir deildina heldur líka handknattleik á Íslandi. Þróttarar hafa góðan þjálfara og fær hann vonandi frið til að byggja þar upp lið. Fylkir er að gera það sem hefur vantað í gegnum árin, að menn leiki sér í handbolta með keppni í huga. Því miður hefur hingað til vantað alla framtíðarsýn hjá sambandinu en það er að breytast núna.

Eitthvað að lokum?

Það hefur aldrei gerst áður að menn hvetji fólk til að mæta á leikina þannig að ég geri það hér með. Að öllu gamni slepptu þá skiptir það gríðarlegu máli fyrir okkar unga lið að fá stuðning. Selfyssingar hafa hingað til stutt liðið vel og vona ég að svo verði áfram. Leikmenn liðins eru ykkar menn og er nær allir afrakstur uppbyggingarstarfsins sem sett er upp hér á Selfossi.