Heimasíðan heldur áfram að hita upp fyrir fyrsta leik Selfoss í 1.deildinni. Stefán Árnason þjálfari 3. og 4. flokks karla svaraði nokkrum spurningum um veturinn.
Hvernig leggst komandi vetur í þig?
Veturinn leggst mjög vel í mig. Við á Selfossi stillum upp ungu og mjög skemmtilegu liði sem ég held að geti gert góða hluti. Liðið bætti sig jafnt og þétt á seinasta tímabili og verður vonandi framhald þar á. Ungir leikmenn munu áfram fá stórt tækifæri í sínu heimaliði en fátt er að mínu mati flottara en það.
Fyrsti leikur vetrarins er gegn Gróttu á nesinu, hvernig meturðu möguleikana?
Möguleikarnir á sigri eru góðir. Selfoss er með lið sem á að geta unnið öll hin liðin í deildinni á góðum degi. Ég spái því að á föstudaginn verði slíkur dagur.
Hvernig líst þér á nýju leikmennina?
Þeir eru fín viðbót við hópinn og munu styrkja liðið töluvert. Jóhann er lunkinn leikmaður og Einar Pétur hefur allt sem góður leikmaður þarf að hafa. Mér finnst það gott skref hjá honum að fara í Selfoss til að fá stærra hlutverk og að spila. Ég hef mikla trú á að hann muni nýta tímann vel og bæta sig mikið sem leikmaður í vetur.
Í ný útkomni spá er Selfoss spáð 4-5 sæti, er það raunhæf spá ?
Ég tel að Selfoss liðið geti endað mun ofar. Í fyrra var liðið það besta í deildinni seinni hluta móts og trúi ég ekki öðru en að menn séu ákveðnir í að halda áfram á þeirri braut. Liðið er nú reynslumeira og eru einnig þarna strákar sem munu springa út í vetur og vekja verðskuldaða athygli.
Nú eru tvö ný lið í deildinni, Þróttur og Fylkir það hlítur að vera gott fyrir deildina?
Það er fyrst og fremst frábært fyrir handboltann sjálfan og mikilvægt að fá fleiri lið inn í deildarkeppnina. Innkoma Þróttar og Fylkis t.d. gerir B-deildina miklu áhugaverðari en hún var.
Eitthvað að lokum?
Ég hvet fólk til að fylgjast vel með handboltanum á Selfossi í vetur, ekki bara í meistaraflokki heldur heilt yfir. Þegar ég kom hingað fyrst kom það mér mjög á óvart hve mikið við höfum hér á Selfossi. Hér er ótrúlegur efniviður sem við þurfum að hlúa vel að. Ef við höldum rétt á spöðunum getum við verið með topp lið hér í framtíðinni ár eftir ár sem borið er uppi af heimamönnum. Það er hins vegar okkar að átta okkur á því og gera eitthvað í því áður en það er um seinan.