Vistaskipti hjá meistaraflokki karla

Selfoss_merki_nytt
Selfoss_merki_nytt

Nokkrar breytingar urðu á liði Selfyssinga í 1. deildinni í knattspyrnu fyrir lok félagaskiptagluggans þann 1. ágúst síðastliðinn.

Eins og áður hefur komið fram kom framherjinn Ragnar Þór Gunnarsson á láni frá Val út tímabilið. Einnig gekk Andri Björn Sigurðsson til liðs við Selfyssinga en hann er 24 ára gamall framherji sem leikið hefur með Þrótti undanfarin tvö ár og skoraði þrjú mörk fyrir liðið í deild og bikar í sumar. Að lokum fékk Selfoss varnar- og miðjumanninn Guðmund Friðriksson til liðs við sig frá Breiðabliki. Guðmundur er tvítugur leikmaður sem kemur að láni út tímabilið.

Á sama tíma lánuðu Selfyssingar miðjumanninn Ingva Rafn Óskarsson í Ægi. Ingvi Rafn hefur komið við sögu í átta deildarleikjum Selfyssinga í sumar en að undanförnu hefur hann ekki verið í byrjunarliðinu.