54. Grýlupottahlaup 2024

Grýlupottahlaup Selfoss 2024 hefst laugardaginn 6. apríl næstkomandi. Er þetta í 54. skipti sem hlaupið er haldið en hlaupið fór fyrst fram árið 1968.

Grýlupottahlaupið er 880 metra langt og er hlaupaleiðin öll á göngustígum nema endaspretturinn er á tartani á frjálsiþróttavellinum. Skráning í hvert hlaup fyrir sig er frá kl. 10:00 í frjálsíþróttahluta Lindexhallarinnar (suðurendanum). Hlaupið er ræst af stað kl 11:00. Hlauparar eru ræstir saman sex í einu með 30 sekúndna millibili. Þátttakendur eru á öllum aldri og er aðalatriðið að vera með.

Hlaupið fer fram sex laugardaga í röð. Fyrsta hlaupið er 6. apríl, síðan 13. apríl, 20. apríl, 27. apríl, 4. maí og 11. maí.

Keppt er í aldursflokkum að 16 ára aldri en þá tekur fullorðinsflokkur við. Allir þeir sem ljúka fjórum hlaupum fá verðlaun. Veittur er bikar í karla- og kvennaflokki þeim hlaupurum sem bestum heildartímum ná í fjórum hlaupum.